Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Hvað gera stelpurnar gegn FH í Hafnarfirði?

Í hár saman? Amalía Árnadóttir, leikmaður Þórs/KA til hægri, og Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, eigast við í Boganum í síðustu viku. Mynd: Ármann Hinrik

Kvennalið Þórs/KA freistar þess að komast aftur á sigurbraut í dag þegar það sækir FH heim í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins.

Þór/KA hefur tapað tveimur fyrstu leikjunum að loknu mánaðarlöngu EM-hléi, fyrir Tindastóli og Val, en þrátt fyrir það er liðið enn í 4. sæti Bestu deildarinnar með 18 stig úr 12 leikjum. Valur náði að komast upp að hlið Akureyrarliðsins með sigri í Boganum í síðustu umferð, en hefur lokið 13 leikjum, auk þess sem Þór/KA hefur betri markatölu.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 13. umferð
    Kaplakrikavöllur í Hafnarfirði kl. 18
    FH - Þór/KA

Þór/KA og FH hafa mæst tvisvar í Boganum í sumar og Hafnarfjarðarliðið haft betur í bæði skiptin. Fyrst vann FH 3:0 í Bestu deildinni snemma í maí og síðan 3:1 í átta liða úrslitum bikarkeppninnar um miðjan júní. Bikarúrslitaleikurinn er á dagskrá á laugardaginn kemur og þar verða FH-stelpurnar á ferðinni; þær sigruðu Val í undanúrslitum og mæta Breiðabliki í úrslitunum á Laugardalsvelli.