Bjóða upp á fótbolta fyrir börn með sérþarfir

Þór og KA taka höndum saman og bjóða upp á fótboltaæfingar fyrir börn með sérþarfir á aldrinum 6-16 ára í haust, á 7 vikna námskeiði. Yfirþjálfari er knattspyrnukonan Margrét Árnadóttir hjá Þór/KA. Fyrsta æfingin var í gær, mánudaginn 11. ágúst, en æfingar eru á mánudögum kl. 15.00 á íþróttasvæði Þórs.
Mikilvægt verkefni sem verður að lifa
Katrín Árnadóttir er mamma Ídu Anton, sem er með downs heilkenni. Ída tók þátt í fyrstu fótboltaæfingunni og var hæstánægð með daginn. „Ég hef mikla trú á að Allir með verkefnið verði til þess að börn sem þurfa meiri aðstoð fái að prófa fleiri íþróttir en áður hefur staðið þeim til boða,“ segir Katrín við blaðamann Akureyri.net. „Í fyrravetur var opinn íþróttatími í boði fyrir þennan hóp og nú bætast fótboltaæfingar við. Þetta er frábær byrjun. Það er mikilvægt að þetta verði ekki bara tímabundið verkefni heldur fastur liður í lífi þessa barna. Hver veit nema að það leynist afreksíþróttamanneskja í hópnum!“
Siguróli Sigurðsson, íþróttafulltrúi KA, segir að æfingarnar hafi verið allan síðasta vetur og gengið vel, og haldið verði áfram á komandi vetri. Æfingarnar eru í samstarfi við verkefnið Heilsueflandi samfélag hjá Akureyrarbæ og ÍBA.
Hér má skoða facebook síðu Allir með verkefnisins.