Gleðiveisla Þórsara í Laugardal – MYNDIR

Frábær stemning var á AVIS velli Þróttar í Laugardalnum á laugardag þegar Þórsarar tryggðu sér sæti í Bestu deildinni í knattspyrnu næsta sumar. Þór lagði þá Þrótt 2:1 eins og akureyri.net greindi frá og sigraði þar með í Lengjudeildinni.
Áhorfendur voru hvorki fleiri né færri en 2.642, sem er með því allra mesta á knattspyrnuleik hér á landi í sumar, stuðningssveitir beggja liða eru þekktar fyrir líflega framkomu svo úr varð mikil gleðiveisla. Veðrið skartaði sínu fegursta en þegar á leið var ekki laust við að enn bjartara virtist á norðurhimninum en áður... Að leikslokum var gleðin öll Þórsara, eins og nærri má geta; sannarlega ósvikin gleðistund og langþráð. Eftir 11 leiktíðir í næst efstu deild leika er Þórsliðið loksins komið í efstu deild á ný.
Eins og greint var frá á laugardaginn kom Sigfús Fannar Gunnarsson Þór í 1:0 eftir laglega sendingu Ýmis Más Geirssonar á 25. mínútu og Ingimar Arnar Kristjánsson breytti stöðunni í 2:0 þegar hann þrumaði boltanum í markið eftir hornspyrnu á 71. mínútu. Viktor Andri Hafþórsson lagaði stöðuna fyrir Þrótt í blálokin.
Neðst í fréttinni má sjá myndasyrpu frá laugardeginum, fyrst nokkrar myndir úr Minigarðinum þar sem stór hópur stuðningsmanna Þórs, á öllum aldri, hittist fyrir leikinn, og svo frá veislunni í Laugardal.
Myndir: Ármann Hinrik
Mynd: Skapti Hallgrímsson
Mynd: Ármann Hinrik
Sigfús Fannar Gunnarsson skorar fyrra mark Þórs á laugardag úr þröngu færi eftir góða sendingu Ýmis Más Geirssonar. Á eftir kyssti Sigfús ljósmynd á bol sem hann klæddist undir keppnistreyjunni; myndin er af Ástu langömmu Sigfúsar sem lést í fyrra. Hún hefur fylgt Sigfúsi í öllum leikjum sumarsins og vert að geta þess að hann varð markahæstur í Lengjudeildinni með 15 mörk í 21 leik. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Ingimar Arnar Kristjánsson kom Þór í 2:0 þegar 20 mínútur voru eftir. Eftir hornspyrnu féll boltinn fyrir fætur framherjans unga í vítateignum og hann var snöggur að hugsa; þrumaði boltanum upp í markvinkilinn áður en heimamenn fengu nokkuð að gert. Myndir: Skapti Hallgrímsson