Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Stórsigur á Vestra dugði ekki fyrir KA

Birnir Snær Ingason skoraði þriðja mark KA í dag þeir Hallgrímur Mar fagna því vel. Myndir: Ármann Hinrik

Síðasta umferð Bestu deildar karla, áður en deildinni verður skipt upp, hófst í dag. KA tók á móti Vestra og þurftu bæði lið á sigri að halda til að eiga einhverja möguleika á að verða í efri helmingi deildarinnar eftir uppskiptingu. KA-liðið kom ákveðið til leiks og vann öruggan 4:1 sigur á gestunum í miklum baráttuleik. Sigurinn dugði þó ekki til, því FH og Fram gerðu jafntefli í sínum leik og þau úrslit þýða að KA situr eins og er í 7. sæti deildarinnar á lakari markamun en Framarar.

Leikurinn fór fjörlega af stað og bæði lið gerðu tilkall til að fá vítaspyrnu á fyrstu mínútum leiksins en ekkert dæmt. Um miðjan hálfleikinn fengu KA-menn þó víti, þegar brotið var að Birgi Baldvinssyni. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði örugglega úr spyrnunni og heimamenn voru 1:0 yfir í leikhléi. En þar sem Fram var 1:0 yfir gegn FH á sama tíma, þá var KA ennþá í neðri helmingi deildarinnar.

Steinþór Már hefur oft haft meira að gera í markinu hjá KA en hér bjargar hann glæsilega.

Fyrrverandi Þórsari kemur KA til aðstoðar

Vestramenn komu grimmir til leiks í seinni hálfleik og sóttu mikið. Uppskáru vítaspyrnu eftir korters leik og Diego Montiel jafnaði úr henni af miklu öryggi. En þá tóku KA-menn við sér og réðu gangi mála til leiksloka. Hans Viktor Guðmundsson kom KA aftur yfir þegar rúmar 20 mínútur voru til leiksloka og á næstu mínútum snerist lukkan í lið með KA þegar fyrrverandi Þórsarinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson kom inn á í liði FH gegn Fram. Á örfáum mínútum lagði hann upp jöfnunarmark FH og kom Hafnfirðingum síðan yfir í leiknum skömmu síðar. Ef KA næði að landa sigri gegn Vestra - og Bjarni Guðjón og félagar ynnu Fram - þá væri KA komið upp í 6. sætið!

Hallgrímur Mar Steingrímsson, lengst til vinstri, er hér í þann mund að skora fjórða mark KA-mann og gulltryggja sigurinn.

KA í 6. sætinu alveg fram í uppbótartíma

Og KA gerði sitt - þeir Birnir Snær Ingason og Hallgrímur Mar Steingrímsson bættu við mörkum fyrir KA og tryggðu öruggan sigur á bikarmeisturum Vestra. En ógæfan dundi yfir í uppbótartíma í Hafnarfirði - Fram jafnaði leikinn í blálokin og komst þar með upp að hlið KA í 6. sæti. Óhagstæður markamunur KA gerir það að verkum að Framarar teljast ofar í stöðutöflunni.

Sannarlega svekkjandi niðurstaða fyrir KA, sem hefur smám saman þokað sér ofar í deildinni eftir brösótta byrjun á tímabilinu. Þetta er þriðja sumarið í röð sem liðinu mistekst að enda í efri hlutanum og nú taka við 5 leikir gegn hinum liðunum í neðri hlutanum, þar sem tvö neðstu liðin munu síðan falla í 1. deild. Markmið KA er væntanlega að „vinna“ neðrihlutakeppnina eins og síðustu 2 ár og ná 7. sætinu. Það er a.m.k. ljóst að ekki dugar að hengja haus þrátt fyrir að ná ekki að komast í efri hlutann, því leiki gegn liðum sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni þarf að taka alvarlega.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni