Fara í efni
Amtsbókasafnið

Frísskápurinn hefur eignast félaga

Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Þegar Akureyri.net heimsótti Amtsbókasafnið fyrr í vetur og ræddi þar við þrjár starfskonur um fjölbreytileikann í verkefnum safnsins var meðal annars fjallað um ísskáp sem stendur við vesturenda hússins – eða svokallaðan frísskáp – þar sem fólk getur komið fyrir matvælum sem það vill deila með öðrum. Hver sem er getur svo kíkt í skápinn og tekið það sem hentar.

Alls ekki bara bókasafn og suss! | akureyri.net

Í umfjölluninni kom fram að í bígerð væri að koma fyrir þurrvöruskáp við hlið frísskápsins undir matvæli sem óþarfi er að geyma í kæli þannig að slíkar vörur myndu ekki teppa plássið í kæliskápnum. Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu, sem hefur umsjón með skápnum ásamt samstarfsfólki sínu á safninu, tilkynnti um þurrvöruskápinn á Facebook-síðunni Frísskápur / Freedge Akureyri núna í byrjun apríl.

Á Facebook-síðu skápsins – nú skápanna – eru örfáar og einfaldar reglur til upplýsingar og eftirbreytni:

  • Frísskápurinn er staðsettur við Amtsbókasafnið.
  • Frísskápurinn er sameign sem miðar að því að draga úr matarsóun og byggja upp samheldnara samfélag með því að deila mat.
  • Hver sem er má skilja eftir matvæli og taka matvæli.

Að gefa mat:

- Skiljið aðeins eftir mat sem er í lagi
- Merkið matinn með dagsetningu ef hann er ekki í upprunalegum umbúðum (penni og límband á staðnum)
- Takið endilega mynd af því sem þið setjið í skápinn og deilið í grúppunni.
- Hjálpumst að við að halda ísskápnum hreinum.