Fara í efni
Alfreð Gíslason

KA/Þór á toppnum eftir sigur gegn ÍBV

Unnur Ómarsdóttir skoraði þrjú mörk úr þremur skotum gegn ÍBV í dag. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

KA/Þór fékk ÍBV í heimsókn í 2. umferð efstu deildar kvenna í handbolta í dag. Bæði lið unnu góða sigra í fyrstu umferðinni og Vestmanneyingar voru fyrirfram taldir talsvert sigurstranglegri í þessari viðureign, ef miðað er við spádóma um gengi liðanna í deildinni í vetur. En spádómar vinna ekki leiki og heimastúlkur sýndu og sönnuðu með frammistöðu sinni að þær eiga fullt erindi meðal þeirra bestu. KA/Þór fór með öruggan 30:25 sigur af hólmi og eru efstar í deildinni.

ÍBV skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en KA/Þór jafnaði fljótlega og lengst af fyrri hálfleiks var leikurinn í járnum. Mikið um tapaða bolta á báða bóga og hvorugt liðið náði að taka af skarið og sigla framúr. En síðustu 5 mínútur hálfleiksins náðu heimastúlkur að snúa leiknum aðeins sér í vil; skoruðu 3 mörk í röð og þegar flautað var til leikhlés var KA/Þór með tveggja marka forystu, 14:12.

Sigurinn aldrei í hættu eftir góðan seinni hálfleik

Ekki nóg með það - KA/Þór gerði líka fyrstu 3 mörkin í síðari hálfleik á fyrstu 5 mínútunum og forystan var komin í 5 mörk. ÍBV hafði þá ekki skorað mark í 10 mínútur og þennan mun náðu gestirnir aldrei að vinna upp. Næst komust þær þegar þær minnkuðu muninn í 18:16 en þá komu 3 mörk í röð frá Þór/KA og sigurinn var aldrei í hættu eftir það.

Frábær sigur hjá KA/Þór og nokkuð óvæntur að margra mati. Lykillinn að sigrinum í dag var skynsamur og agaður leikur og margir leikmenn sem gátu klárað sóknir með marki. Varnarleikurinn var lengst af góður og með Susanne Denise Pettersen í broddi fylkingar í vörninni komust helstu skyttur ÍBV lítt áleiðis. Breiddin virtist minni hjá gestunum og þær áttu hreinlega engin svör þegar gefa fór á bátinn.

Vörnin hjá KA/Þór var sterk, sérstaklega í seinni hálfleik, og leikmenn ÍBV áttu í erfiðleikum með að komast í gegn. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Mörk KA/Þórs: Tinna Valgerður Gísladóttir 7 (6 úr víti), Kristín A. Jóhannsdóttir 5, Susanne Denise Pettersen 4, Trude Blestrud Hakonsen 4, Unnur Ómarsdóttir 3, Anna Petrovics 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 7, Bernadett Leiner 1.

Mörk ÍBV: Sandra Erlingsdóttir 7 (2 víti), Birna Berg Haraldsdóttir 6, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 5, Amelía Dís Einarsdóttir 4, Birna Dís Sigurðardóttir 1, Birna María Unnarsdóttir 1, Britney Emilie Florianne Cots 1.

Varin skot: Amalia Froland 13, Ólöf Marín Bjarnadóttir 0.

Öll tölfræðin