Fara í efni
Alfreð Gíslason

Uppskerubrestur þrátt fyrir baráttugleði

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir átti skalla rétt framhjá markinu í seinni hálfleiknum. Mynd: Ármann Hinrik.

Þór/KA stendur frammi fyrir fallbaráttu í Bestu deild kvenna eftir 0-1 tap fyrir Þrótti í Boganum í gærkvöld. Liðið hefur sigið niður töfluna undanfarnar vikur og situr nú í 7. sæti deildarinnar. Einni umferð er ólokið fyrir tvískiptingu deildarinnar þegar sex efstu liðin halda áfram baráttu um efstu sætin og þau fjögur neðstu berjast við að forðast fall.

Óhætt er að segja að lukkan hafi ekki endilega verið með Þór/KA í liði að undanförnu. Agnes Birta Stefánsdóttir var ekki með í gær þar sem hún tók út leikbann og Margrét Árnadóttir meiddist í leiknum gegn Stjörnunni fyrir viku. Það voru þó að sjálfsögðu 11 leikmenn sem hófu leikinn og sannarlega skorti ekkert upp á vilja og baráttugleði hjá liðinu. Það skilaði þó engri uppskeru því færin nýttust ekki og skakkaföllinn urðu fleiri. 

Það voru gestirnir úr Laugardalnum sem skoruðu eina mark leiksins. Það kom strax á 5. mínútu þegar Sierra Marie Lelii náði að koma boltanum í netið eftir atgang í teignum í kjölfar hornspyrnu. Þór/KA hafði byrjað leikinn af meiri ákafa, en markið kom eftir fyrstu sókn Þróttar.

Leikhlé í stað vítaspyrnu

Umdeilt atvik átti sér stað á lokaandartökum fyrri hálfleiksins þegar Ellie Moreno fer í boltann rétt innan vítateigs Þróttar. Mollee Swift, markvörður Þróttar, kemur út á móti og verður ekki betur séð en að hún brjóti á Ellie, bæði við fyrstu snertingu og svo aftur þegar Ellie reynir að ná jafnvægi og halda áfram. Í stað þess að taka ákvörðun um vítaspyrnu flautaði dómari leiksins fyrri hálfleikinn af. 

Þessi myndasyrpa sýnir viðskiptin milli Ellie Moreno, sóknarmanns Þórs/KA, og Mollee Swift, markvarðar Þróttar. Myndir: Ármann Hinrik. 

Furðu lostnir leikmenn létu skoðanir sínar í ljós við dómara leiksins og uppskar Sonja Björg Sigurðardóttir gult spjald fyrir það sem virtust hófstillt mótmæli. Hún hafði skömmu áður fengið áminningu vegna brots og fékk þarna sína aðra áminningu og þar með brottrekstur. Undarlega harkaleg viðbrögð við mótmælum ósáttra leikmanna sem virðast hafa haft mikið til síns máls. Viðræður Jóhanns Kristins Gunnarssonar, þjálfara Þórs/KA, við dómara leiksins áður en gengið var til búningsklefa enduðu einnig með því að dómarinn lyfti gula spjaldinu. 

Hulda Björg Hannesdóttir, fyrirliði Þórs/KA, leitar skýringa hjá dómara leiksins á umdeildri ákvörðun á lokaandartökum fyrri hálfleiks. Mynd: Ármann Hinrik.

Einni færri, en ekki verri

Þrátt fyrir að vera einni færri allan seinni hálfleikinn var Þór/KA síst lakari aðilinn í leiknum og raunar mikil óheppni að ná ekki að skora mark eða mörk í leiknum. Til dæmis átti Sonja Björg sláarskot í fyrri hálfleiknum og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir skallaði rétt framhjá í þeim seinni. Færin voru fleiri á báða bóga, en ýmist fóru skotin framhjá markinu eða markverðirnir Jessica Berlin hjá Þór/KA og Mollee Swift hjá Þrótti komu í veg fyrir fleiri mörk. 

Minnstu munaði að Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir næði að jafna leikinn með skalla í seinni hálfleiknum, en boltinn fór rétt framhjá markinu. Myndir: Ármann Hinrik.

Leikmennirnir tíu sem voru eftir á vellinum lögðu allt í leikinn, sem og þær sem komu inn af varamannabekknum. Mótlætið stappaði í þær stálinu, en það sem upp á vantaði var að boltinn endaði í netinu. Þegar svo fer er uppskeran engin og ónýtt færi gefa engin stig. Þróttur hirti stigin þrjú og heldur áfram að eltast við FH í baráttu um sæti í Evrópukeppni að ári. Baráttan fram undan hjá Þór/KA er hins vegar af öðrum toga.

Á meðal þeirra sem komu inn á var Sigyn Elmarsdóttir, sem er á yngra ári í 3. flokki, fædd 2010, og var þetta hennar fyrsti leikur í meistaraflokki. Þrjár aðrar ungar og efnilegar knattspyrnukonur, fæddar 2008, 2009 og 2010, sem ekki hafa áður komið við sögu í meistaraflokki voru í leikmannahópnum hjá Þór/KA, en komu þó ekki inn á í leiknum. 

Áskorun fram undan

Þrír leikir voru í 17. umferð mótsins í gærkvöld. Stjarnan vann Fram á heimavelli, Víkingur vann FH á útivelli og Þór/KA tapaði heima fyrir Þrótti. Á sunnudag mætast FHL og Breiðablik annars vegar og Valur og Tindastóll hins vegar. 

Þór/KA sækir Breiðablik heim í lokaumferðinni fyrir tvískiptingu deildarinnar og jafnvel með sigri í þeim leik eru líkurnar ekki Þór/KA í vil í baráttunni um hvaða lið verða í efri og neðri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu. Það er því óhætt að segja að fram undan sé áskorun fyrir þjálfara, leikmenn og aðra í kringum félagið í baráttunni við tvö önnur lið við að forðast fall. Ef liðið allt og leikmenn mæta til leiks í þeim leikjum sem eftir eru í haust með sömu baráttu í farteskinu og liðið gerði í gær þarf raunar ekki að hafa miklar áhyggjur því þessi baráttugleði mun duga til meiri uppskeru en í leiknum í gær.

FHL hefur nú þegar hlotið þau örlög að falla úr deildinni, jafnvel þótt liðið vinni þá leiki sem eftir eru. Liðin í neðri hlutanum núna eru Þór/KA með 21 stig, Fram með 18 stig og Tindastóll með 17. Fyrir ofan eru Víkingur með 22 stig og Valur með 24.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Lokaumferð deildarinnar fyrir tvískiptingu fer fram laugardaginn 20. september og hefjast allir leikirnir kl. 14:

  • Breiðablik - Þór/KA
  • Víkingur - FHL
  • Tindastóll - FH
  • Fram - Valur
  • Þróttur - Stjarnan