Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

Þórsarar flugu í átta liða úrslit bikarsins

Ibrahima Balde var magnaður í fyrri hálfleiknum í kvöld; gerði tvö fyrstu mörkin og átti glæsilega sendingu á Ingimar Arnar Kristjánsson þegar hann gerði þriðja markið. Einar Freyr Halldórsson í fjarska, gerði fjórða mark Þórs. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar verða í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitum bikarkeppni Knattspyrnusambandsins, Mjólkurbikarkeppninnar, eftir öruggan 4:1 sigur á Selfyssingum í kvöld.

Þórsarar voru sannfærandi á Selfossvelli; Ibrahima Balde kom Þór í 1:0 strax á þriðju mínútu, hann skoraði aftur á 16. mínútu og Ingimar Arnar Kristjánsson kom Þór í 3:0 á 39. mín. eftir glæsilega sendingu Balde.

Selfyssingar minnkuðu muninn rétt fyrir hlé en Einar Freyr Halldórsson gulltryggði sigurinn snemma í seinni hálfleik.

Þrjár breytingar voru á byrjunarliði Þórs frá 4:1 sigrinum á Leikni í deildinni á föstudaginn; Yann Emmanuel Affi, Hermann Helgi Rúnarsson og Ingimar Arnar Kristjánsson komu inn í liðið í stað Arons Inga Magnússonar og Clement Bayiha, sem voru á bekknum, og Orra Sigurjónssonar, sem var hvíldur og fór ekki með suður.

Affi var miðvörður við Ragnars Óla, Hermann tók stöðu Arons Inga á miðjunni og Ingimar var fremsti maður en Sigfús Fannar, sem hefur verið í þeirri stöðu undanfarin, lék á hægri kantinum.

  • 0:1 – Þórsarar fengu innkast á hægra kantinum, boltanum var kastað á Ingimar yst í vítateignum, hann kom boltanum á Ibrahima Balde sem lét vaða rétt innan vítateigs og mark var staðreynd þegar nákvæmlega tvær og hálf mínúta var liðin.
  • 0:2 – Einar Freyr Halldórsson tók hornspyrnu frá hægri, sendi boltann inn á markteiginn þar sem enginn hafði roð við hinum stóra og stæðilega Ibrahima Balde sem skalla boltann af markteignum í fjærhornið þegar 16 mínútur voru af leik.
  • 0:3 – Þórsarar unnu boltann á eigin vallarhelmingi, Balde fékk hann í miðjuhringnum og átti nánast samstundis frábæra utanfótar sendingu á Ingimar sem komst inn í vítateig með varnarmann á hælunum og skoraði framhjá Arnóri Elí markverði sem kom út á móti honum.

Ingimar Arnar Kristjánsson gerði þriðja mark Þórs seint í fyrri hálfleik. Mynd: Ármann Hinrik

  • 1:3 – Selfyssingar fengu horn á 43. mínútu, eftir baráttu við Þórsmarkið barst boltinn út fyrir teig og Aron Lucas Vokes skoraði með lúmsku skoti; boltinn fór í markið alveg út við stöng. Mikil þvaga var í teignum svo Aron Birkir markvörður Þórsari hefur varla séð boltann fyrr en hann var kominn í netið.
  • 1:4 – Þórsarar fóru langt með að tryggja sér sigurinn í fyrri hálfleik en Einar Freyr Halldórsson gerði endanlega út um litlar vonir heimamanna á 54. mínútu. Þór fékk innkast framarlega á vellinum, kastað var inn í teig á Ingimar Arnar sem náði að koma boltanum út að vítateigslínu þar sem Einar Freyr sendi hann rakleiðis neðst í vinstra hornið. Afar vel gert hjá þessum stórefnilega 16 ára dreng.

Leikskýrslan