Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

Þór/KA áfram í bikarnum – MYNDIR

Amalía Árnadóttir skoraði eitt marka Þórs/KA í bikarsigrinum á KR. Hér á hún í baráttu við Emilíu Ingvadóttur, fyrirliða KR. Myndir: Ármann Hinrik.

Myndir segja meira en þúsund orð, en oftast kemur best út þegar orð og myndir spila saman. Ármann Hinrik mundaði myndavélina á leik Þórs/KA og KR í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar, Mjólkurbikarsins, á sunnudaginn. Sex mörk litu dagsins ljós, fimm sem skoruðu mörkin og í beinu framhaldi af frétt Vísis um 16 ára aldursmun á leikmönnum sem skoruðu fyrir Breiðablik í sigri á FHL má nefna að aldursmunur tveggja markaskorara hjá Þór/KA er 15 ár, Sandra María Jessen fædd 1995 og Bríet Fjóla Bjarnadóttir 2010, báðar í janúarmánuði.

Neðst í fréttinni má finna krækju á myndband á ruv.is, en fyrst eru það ljósmyndir Ármanns Hinriks og stutt lýsing með hverju marki. 

  • 1-0 – Sandra María Jessen, 15. mínúta

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir sendi boltann upp hægra megin þar sem Bríet Fjóla Bjarnadóttir tók við honum, lék upp að endamörkum og renndi út á Söndru Maríu Jessen á markteigslínunni. Sandra María stöðvaði boltann og skóflaði honum svo á milli varnarmanna KR og í markið.

  • 2-0 – Amalía Árnadóttir, 28. mínúta

Bríet Jóhannsdóttir er komin inn á miðjan völlinn, kemur boltanum til vinstri á Henríettu Ágústsdóttur sem á frábæra sendingu inn á teiginn þar sem Amalía Árnadóttir tekur vel við boltanum og fær nægan tíma til að athafna sig, skoraði af miklu öryggi.

  • 3-0 – Sandra María Jessen, 38. mínúta

Henríetta Ágústsdóttir sendi háa sendingu frá miðlínunni, hægra megin, inn að vítateignum þar sem Margrét Árnadóttir tekur við honum. Margrét rennir boltanum til vinstri á Söndru Maríu Jessen, sem kemst framhjá varnarmanni vinstra megin og skorar með föstu skoti.

  • 4-0 – Margrét Árnadóttir, 54. mínúta

Hulda Ósk Jónsdóttir kom inn á í byrjun seinni hálfleiks og setti mark sitt á leikinn á þeim 45 mínútum sem hún spilaði. Á 54. mínútu átti hún háa sendingu inn á vítateginn þar sem Margrét Árnadóttir tók við boltanum og skoraði af öryggi. 

  • 5-0 – Emelía Ósk Krüger, 64. mínúta

Hulda Ósk hélt áfram að ógna á hægri kantinum eins og hennar er von og vísa. Tíu mínútum eftir að hún lagði upp mark fyrir Margréti fór hún upp hægra megin, að endamörkum, og sendi inn á markteiginn. Emelía Ósk tók við boltanum og átti skot í fjærhornið.

  • 6-0 – Bríet Fjóla Bjarnadóttir, 87. mínúta

Enn var Hulda Ósk á ferðinni þegar sjötta markið kom. Bríet Jóhannsdóttir tók þá innkast, Hulda tók fallega við boltanum upp við endamörk, sendi háan bolta út í teiginn hinum megin þar sem Bríet Fjóla tók hann lystilega niður og skoraði af öryggi.

Upptöku af öllum mörkum leiksins má finna á vef Rúv - sjá hér.