„Nafnið fullkomið og allir elska Ísland“
Flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í nafni Niceair hefst á ný í febrúar næstkomandi. Hér er á ferð nýtt fyrirtæki í eigu annarra en ráku Niceair á sínum tíma, og stefnt er að því að fljúga víða um Evrópu, en „nafnið er fullkomið og allir elska Ísland,“ sagði forstjórinn, Martin Michael, spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að nota Niceair nafnið og fljúga m.a. til og frá Akureyri, þegar hann kynnti starfsemina í gær.
Michael tilkynnti í gær um tvo flugdaga á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í febrúar eins og akureyri.net greindi frá: Niceair 2.0 stígur varlega til jarðar, og sala flugmiða á að hefjast í dag á vef félagsins – https://niceair.eu/. Framhaldið ræðst af viðtökum, að sögn forstjórans, en sumaráætlun félagsins verður kynnt í síðasta lagi snemma í apríl.
Verð fram og til baka frá 60.000 krónum
Michael segir Niceair ekki hefðbundið lággjaldaflugfélag heldur verði farangur innifalinn í verði, svo og léttar veitingar.
Flug með Niceair milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, báðar leiðir, mun kosta frá 400 evrum, að sögn Michaels. Það jafngildir 60.000 þúsund krónum. Innifalið er ferðataska, handfarangur, snakk og óáfengir drykkir. Í febrúar verður farangursheimild 15 kg taska og 5 kg handfarangur, segir Michael, en stefnt sé að því að í framhaldinu verði innifalin 23 kg taska og 8 kg handfarangur.

Martin Michael forstjóri Niceair og Svala Rán Aðalbjörnsdóttir deildarstjóri flugverndar hjá Isavia á Akureyrarflugvelli.
Fram kom í gær að markmiðið væri að bjóða upp á flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar tvisvar í viku allt árið en Michael sagði ómögulegt að tilkynna svoleiðis nokkuð núna. „Ef viðtökur verða ekki góðar og við fljúgum með 20, 30 eða 40 farþega í fyrstu ferðunum er auðvitað ekkert vit í að gefa það út strax að við ætlum að fljúga tvisvar í viku árið um kring,“ sagði hann við akureyri.net eftir fundinn í gær.
Samið hefur verið við danskt leiguflugvél vegna flugsins milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í febrúar; þá verður notuð 190 sæta Boeing 737 vél, en í framhaldinu muni Niceair leigja vélar frá ýmsum félögum. Vélar verði ekki teknar á langtímaleigu eins og gert var á sínum tíma.
Þýskaland og Spánn?
Starfsemin nú verður frábrugðin gamla Niceair að ýmsu leyti, að sögn forstjórans; ekki verður ein vél sérmerkt félaginu heldur verða leigðar vélar eftir áfangastöðum og eftirspurn hverju sinni. Mjög mismunandi sé eftir áfangastöðum hve stórar vélar séu heppilegar.
Hið nýja Niceair er fjármagnað með eigin fé fjölskyldufyrirtækis Martins Michael, Whitesharkgroup í Þýskalandi. Þar hefur hann starfað við ferðaþjónustu og flugrekstur til fjölda ára. Skrifstofa fyrirtækisins er í þýsku borginni Düsseldorf og Michael nefnir hana sem einn mögulegra áfangastaða Niceair frá Akureyri í framtíðinni; félagið vilji leggja mesta áherslu á ferðir í sólina en að mörgu sé að hyggja, m.a. hvaða flugvélar séu notaðar.
„Það er er til dæmis skortur á flugi frá Þýskalandi til Kanaríeyja, hvernig gætum við tengt þetta? Tæknilega væri flug frá Düsseldorf til Tenerife, þaðan til Akureyrar, aftur til Tenerife og þaðan til Düsseldorf, til dæmis möguleiki. En það væri ekki hægt ef við hefðum bara eina flugvélastærð.“
Þjóðverjar hrifnir en vilja bíða
Michael sagði, þegar akureyri.net spurði nánar um Düsseldorf eða aðrar þýskar borgir, eftir fundinn í gær, að ekki kæmi til greina að velta fyrir sér flugi þangað á næstunni.
„Þjóðverjar þekkja Ísland mjög vel og eru raunar afar hrifnir af landinu – meðal annars vegna handbolta, en þeir eru varkárir.“ Félagið gæti ef til vill fyllt vélar af Íslendingum til Þýskalands en fólk í ferðageiranum ytri vildi bíða og sjá til hvernig flugreksturinn gangi.
„Allir sem ég talaði við í bransanum voru vissir um að Play myndi fara á hausinn og ef ég kæmi nú og byði þeim að selja ferðir hingað með nýju félagi væri svarið einfalt: „Við höfðum rétt fyrir okkur með Play þannig að nú bíðum við og sjáum.“ Örugglega verða einhverjar hindranir á vegi Niceair, a.m.k. er gott að gera ráð fyrir því og vera vel undirbúinn, en ef okkur gengur vel fyrsta árið væri þetta að sjálfsögðu möguleiki og þess vegna skiptir öllu máli að við stöndum okkur.“
Michael kveðst skilja mætavel ef fólk væri tortryggið í ljósi sögunnar, endurvinna þyrfti traust á vörumerkið og kappkostað yrði að standa vel að öllu. Hann lagði áherslu á að lagt væri upp í langhlaup en ekki sprett. „Ég stefni ekki að því að vinna verðlaun fyrir að Niceair stækki hraðar en önnur félög heldur förum við varlega af stað og viljum byggja félagið upp hægt og rólega.“