Hreinn dónaskapur að segja þetta flugstöð
„Þetta er ekki flugstöð. Mér finnst vera hreinn dónaskapur að halda því fram. Það þarf nauðsynlega að fá hæfan arkitekt til að hanna flugstöð með þeim þægindum og þeirri aðstöðu og þjónustu sem í flugstöð eiga að vera. Það er ekki nóg að byggja skúr og kalla hann höll.“
Þetta segir Sverrir Páll Erlendsson í pistli sem birtist á akureyri.net í dag. Þar fjallar hann um viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli, hús sem farþegar í millilandaflugi fara um og tekið var í notkun á síðasta ári.
Sverrir Páll segir hugmyndina um nýja flugstöð hafa verið þarfa og góða, og á „ótrúlega löngum tíma reis við norðurenda gömlu flugstöðvarinnar á Akureyri einhvers konar skemma, sem er ekki nokkur leið að sjá að hafi verið hönnuð sem flugstöð, enda er hún það ekki nema að nafninu til.“
Hann nefnir ýmis atriði sem ekki séu sæmandi. Ástandið geti ekki gengið og fólk eigi ekki að þurfa að sætta sig við það. „Þess vegna spyr ég: Hvenær kemur flugstöðin?“
- Pistill Sverris Páls: Hvenær kemur flugstöðin?
Pólitísk ákvörðun
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjallað er um nýbygginguna á Akureyrarflugvelli á þessum nótum. Nokkuð bar á gagnrýnisröddum eftir að húsið var tekið í notkun og Hjördís Þórhallsdóttir, þáverandi flugvallarstjóri, sagði gagnrýnina réttmæta í viðtali við akureyri.net í apríl á þessu ári.
„Auðvitað hefði þetta allt mátt vera stærra og rýmra,“ sagði Hjördís þá, aðstaða starfsfólks hefði reyndar gjörbreyst og húsið einnig gert miki fyrir farþega. „Ríkið á þennan flugvöll og við erum bundin því fjármagni sem við fáum frá ríkinu. Það setti því ákveðin mörk á umfang framkvæmdanna,“ sagði hún. „Auðvitað hefði verið betra að vera með stærri viðbyggingu þannig að innritunarsalurinn hefði verið stærri og aðstaðan betri til þess að taka á móti komufarþegum, en þetta verkefni var sem sagt háð fjármagni frá ríkinu og það var pólitísk ákvörðun að setja ekki meiri peninga í þetta verkefni.“
- Viðtalið við Hjördísi: Smæð aðstöðunnar pólitísk ákvörðun