Maddie Sutton á leið frá Þór til Ástralíu

Maddie Sutton, leikmaður körfuknattleiksliðs Þórs undanfarin þrjú tímabil, er á leið til Ástralíu á næstu dögum.
Hún hefur samið við félagið Joondalup Wolves í borginni Joondalup í vesturhluta Ástralíu. Joondalup er tæplega tíu þúsund manna strandbær skammt norður af stórborginni Perth. Félagið leikur í næstefstu deild í Ástralíu, NBL1, sem er eftir því sem akureyri.net kemst næst mögulega nokkuð sterkari en efsta deild á Íslandi. Deildin er svæðaskipt og spilar liðið í vesturdeildinni. Aðspurð segir Maddie ekki ákveðið hvort hún komi aftur til Akureyrar í haust eftir að deildinni í Ástralíu lýkur.
Hefur alltaf samið til eins árs í senn
Maddie var að ljúka sínu þriðja tímabili með Þór og fjórða tímabili á Íslandi, en þegar hún kom fyrst til Íslands að loknu háskólanámi samhliða körfuboltaferli þar samdi hún við lið Tindastóls á Sauðárkróki sem þá lék í 1. deildinni. Árið eftir samdi hún við Þór og átti stóran þátt í að félagið fór upp í efstu deild þar sem Þór hefur nú spilað í tvö tímabil. Maddie hefur verið lykilleikmaður í liðinu sem hefur náð að því er einhverjum finnst óvæntum árangri í efstu deild á þessum tveimur tímabilum. Bæði árin fór liðið í úrslitakeppnina, í bikarúrslitaleik í fyrra, vann titilinn meistari meistaranna í haust, fór í undanúrslit bikarkeppninnar fyrr í vetur, náði 4. sæti deildarinnar og tapaði naumlega fyrir Val í átta liða úrslitum.
Maddie Sutton er sannkölluð drottning í teignum, sá leikmaður sem tekið hefur flest fráköst allra leikmanna í deildinni að meðaltali og snaraði ítrekað fram þrefaldri tvennu. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Lengi langað til Ástralíu
Maddie sagði í samtali við akureyri.net að hana hafi lengi langað til að prófa að spila í Ástralíu og nú hafi tækifærið komið upp í hendurnar á henni. Árin sem hún hefur spilað á Íslandi hefur hún alltaf samið til eins árs í senn og ekki viljað taka ákvörðun um framhaldið með miklar tilfinningar í spilinu í lok tímabils, heldur hefur hún farið heim til Tennessee í Bandaríkjunum, verið í faðmi fjölskyldunnar, slakað á og metið stöðuna áður en hún hefur samið að nýju.
Þrátt fyrir að hafa samið við ástralska félagið segir Maddie að hún hafi verið 100% einbeitt að verkefninu með Þór, að fara eins langt og mögulegt væri í úrslitakeppninni. Það verður auðvitað ekki dregið í efa því í lokaleik einvígisins við Val, sem Valur vann með fimm stiga mun, var hún hæst leikmanna Þórs í öllum helstu tölfræðiþáttunum, skoraði 26 stig, tók 14 fráköst, átti fimm stoðsendingar og var samanlagt með 39 framlagsstig.


Um nesti, fótbolta og fótbolta kvenna

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar

Bjánarnir úti á landi

Styrk stjórn gefur góðan árangur
