Fara í efni
Skip dagsins

Villandi umfjöllun um útblástur?

Útblástur frá skemmtiferðaskipinu Zuiderdam við Oddeyrarbryggjuna olli miklum taugatitringi á meðal bæjarbúa og gesta, en seinna var staðfest að mengunin hafi að mestu verið sjónræn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

SKEMMTIFERÐASKIP - III

Fólki verður tíðrætt um útblásturinn frá vélum skemmtiferðaskipa enda verður ekki hjá því komist að eitthvað af útblæstri frá skipunum sé sýnilegt. Blámóðan sem stundum líður yfir Eyjafjörðinn fer misjafnlega í skapið á fólki og virðist stundum eins og engu máli skipti hvort hægt er að sýna fram á að megnið af útblæstrinum sé skaðlaus. Sjónmengunin angrar sum okkar.

Snemma í júlí vakti athygli og reiði margra þegar hollenska skemmtiferðaskipið Zuiderdam lá við bryggju á Akureyri og frá því lagði mikinn reyk – eða ekki reyk, líklega að mestu bara gufu. Athugasemdakerfin loguðu, bæjarstjórinn og fleiri tjáðu sig um málið, en síðan staðfesti Umhverfisstofnun að um vatnsgufu hafi verið að ræða. Mengunin var þannig að mestu sjónræn þó vissulega hafi orðið bilun og óhapp eftir því sem útgerðin útskýrði og afsakaði sig með. Það sem stakk fólk í augun var að mestu vatnsgufa, en vegna bilunarinnar fór meira af henni út í andrúmsloftið í einu en ætlunin var.


Skoðunarferð um innviði Sky Princess. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í minnisblaði Péturs Ólafssonar hafnarstjóra til bæjarráðs, dagsettu 26. ágúst, fer hann meðal annars yfir það hvað er gert til að draga úr mengun vegna útblásturs frá vélum skipanna. Hann bendir á að öll skip í Evrópu séu útbúin hreinsibúnaði sem fjarlægir hátt í 98% af brennisteini úr útblæstri eða notast við annars konar eldsneyti sem útiloki þessa gerð útblásturs.

Það er síðan einnig fróðlegt að velta fyrir sér umfangi umferðar skemmtiferðaskipa sem hluta af skipaumferð. Pétur bendir á að skemmtiferðaskipin séu einungis um 5% af hafnarumferð stórra hafna innan ESB enda séu um 60 þúsund skip í flutningum og viðskiptum á meðan skemmtiferðaskipin séu einungis um 350.

Fróðleikur um mismunandi útblástur

Í áðurnefndu minnisblaði varpar Pétur fram nokkrum fróðleiksmolum um útblástur skemmtiferðaskipa til að hjálpa áhugasömum við að greina megi útblástur og mismunandi orsakir hans. Hann gengur út frá því að notað sé eldsneyti sem hefur brennisteinsinnihald innan við 0,1% eins og reglur hér mæla fyrir um.

  • Hvítur útblástur sem kemur upp úr reykháf er vatnsgufa frá þvottavélum, og frá SCR kerfum í reykháfi sem binda brennisteinsdíoxíð og önnur efni í útblæstrinum.
  • Gulur útblástur kemur frá NH3 (ammoníak) sem notast er við í svokölluðum scrubber kerfum sem hreinsa útblásturinn.
  • Ljósblár útblástur stafar af biluðum eða lélegum spíssum í dísilvélum (venjulega ljósavélar þegar skip liggur við bryggju).
  • Dökkblár útblástur er smurolíubruni, þ.e. sem kemur upp með stimplum – vélin orðin slitin.
  • Svartur útblástur stafar að ófullnægjandi loftblöndun dísilvéla þ.e. biluð túrbína eða ventlar.

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Akureyrarhafna, birti nýlega pistil um komu skemmtiferðaskipa þar sem hann fer yfir ýmsar hliðar og bendir meðal annars á margs konar ávinning fyrir samfélagið. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Villandi umfjöllun um mengunarvalda?

Í grein á fréttavefnum Vísi 16. júlí eru skemmtiferðaskip sögð vera mesti mengunarvaldur Evrópu og að fleiri en Akureyringar séu sótreiðir, jafnvel bókstaflega. Ekki er þó allt sem sýnist og fyrirsögn fréttarinnar – sem situr væntanlega helst í minni lesenda – var í raun mjög villandi eins og fleira í greininni. Eingöngu var átt við brennisteinsmengun og að hún sé meiri en frá ökutækjum. Það helgast einfaldlega af því að ökutæki lúta strangari kröfum um brennisteinsinnihald í eldsneyti þar sem þau eru eðli málsins samkvæmt notuð í þéttbýli, á götum borga, innan um fólk.

Í greininni á Vísi er einnig sagt frá því að nokkrar borgir í Evrópu hafi gripið til aðgerða til að stemma stigu við menguninni og Feneyjar hafi þar gengið sínu lengst, einfaldlega með því að banna að skemmtiferðaskip legðust þar við bryggju. Hér er ekki heldur allt sem sýnist. Staðreyndin er sú að Cruise Lines International Association (CLIA) hefur um árabil óskað eftir nýjum viðlegustað til að vernda Feneyjalónið sjálft. Það fékkst svo loks í gegn og nú er verið að byggja upp þá aðstöðu á öðrum stað, sem leiðir til þess að hægt var að loka Feneyjalóninu fyrir stærri skipum – að þeirra eigin ósk.


Tvö nokkuð stór skemmtiferðaskip virka fremur smá séð úr brúnni á Sky Princess. Flokkun á umhverfishegðun skipa hefur þegar tekið gildi og mun fela í sér ívilnun eða álögur og styttist í að hægt verði að innheimta gjöld eftir flokkuninni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Þegar einni höfn eða hluta úr höfn eða borg er lokað fyrir komum skemmtiferðaskipa þýðir það ekki að umhverfisfótspor eða útblástur hverfi. Skipin fara annað og umhverfisfótsporið er til staðar þó það sé lágmarkað með öllum tiltækum ráðum og tækni. Það er einfaldlega eðli neyslu manneskjunnar eins og hún er orðin, en auðvitað sjálfsagt að gera allt sem við getum til að breyta neysluháttum og draga úr áhrifum hennar. Útgerðirnar hafa líka hugað að útblæstrinum og ný tækni er að ryðja sér til rúms í þeim efnum. Nýjustu skipin og ný skip sem væntanleg eru á næstu árum munu bera vott um það.

Kröfur útgerðarinnar stundum strangari

Þegar komið er í höfn á risastóru skipi með þúsundir um borð er að mörgu að hyggja og mikil vinna sem liggur að baki því að kynna sér reglur í hverju landi. Reglur sem geta breyst á milli heimsókna eða milli ára. Þar er því unnið með lifandi skjal með reglugerðum sem tengjast umhverfismálum og öllu því sem huga þarf að þegar skemmtiferðaskip kemur inn í nýja lögsögu.

Mikil áhersla var lögð á það af útgerðinni og stjórnendum skipsins í heimsókninni um borð í Sky Princess að farið væri eftir reglum í hverju landi og í mörgum tilfellum væru kröfur útgerðarinnar sjálfrar strangari en reglur í þeim löndum sem það heimsækir.

Hafnarstjórinn tjáir sig

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, birti pistil fyrir nokkru þar sem hann meðal annars fer yfir komur skemmtiferðaskipa og ýmislegt sem þeim tengist, svo sem efnahagslegan ávinning, mengunarvarnir, skipulagið og fleira.

Pétur bendir meðal annars á að kröfur til skipanna hafi verið hertar og upp hafi komið aðeins örfá atvik þar sem útblástur hefur skyggt á annars góðan árangur og vísar þar meðal annars til áðurnefnds atviks hjá hollenska skipinu. Þróunin hafi verið jákvæð og sé til vitnis um skuldbindingu þessa geira við sjálfbærni. Hingað hafi til dæmis komið fulltrúar Cruise Lines International Association (CLIA) snemma í sumar og viljað opna á boðleiðir, meðal annars til hafnaryfirvalda á Akureyri, til að ferðamáti með skipum megi þróast í fullri sátt við samfélagið, eins og Pétur orðar það. „Sú vegferð er hafin, en betur má ef duga skal enda stefna útgerðir skemmtiferðaskipanna á kolefnishlutleysi árið 2050.“

Umhverfisvænni orkugjafar á komandi árum

En það er líka verið að hugsa til framtíðar og nýjustu skipin eru umhverfisvænni en þau eldri. Pétur bendir á að nú þegar séu skip í smíðum sem nýta umhverfisvænni orkugjafa á borð við fljótandi jarðgas (LNG) sem hefur nánast enga brennisteinslosun, 95% meiri minnkun svifryks og 85% minni losun köfnunarefnisdíoxíðs. „Þá fjölgar skipum sem geta nýtt lífeldsneyti eða aðra orkugjafa eins og metanól, vetni og rafhlöður. Við munum sjá þessi skip heimsækja okkur þegar þau verða tekin í þjónustu á komandi árum,“ skrifar Pétur. Hann bendir jafnframt á að árangur síðustu ára hafi verið þannig að skemmtiferðaskipin séu eini hagaðili ferðaþjónustunnar á heimsvísu sem losi minna af gróðurhúsalofttegundum en áður og það sé til fyrirmyndar. Útgerðir skemmtiferðaskipa stefna á kolefnishlutleysi árið 2050.

Ívilnun eða álögur

Hér að framan var nefnt að kröfur útgerðanna séu stundum strangari en þær reglur sem gilda í hverju landi fyrir sig. Pétur hefur vakið athygli á að strangar reglugerðir og viðmiðunarreglur á borð við Environmental Port Index (EPI) hafi verið settar til að tryggja að skip sem koma í höfn fylgi ströngustu umhverfisstöðlum, noti hreinna eldsneyti og háþróaða losunarvarnartækni. „Á Akureyri erum við að taka upp Environmental Port Index sem felur í sér ívilnun eða álögur eftir umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði okkar, flokkunin hefur þegar tekið gildi en enn sem komið er getum við ekki löglega innheimt gjöld eftir flokkuninni en það stendur vonandi til bóta,“ skrifar Pétur.

„EPI gerir okkur kleift að skilgreina umhverfisspor skemmtiferðaskipa á meðan dvöl þeirra stendur. Við munum nota kerfið sem fjárhagslegt hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari rekstrar skemmtiferðaskipa sem dregur þannig úr líkum á að útgerðir hafi hagsmuni af því að koma með mengandi skip. Við vonumst til að geta deilt með íbúum Akureyrar hvernig EPI stuðull skipanna þróast en öll fá þau einkunn þar sem núll er verst og 100 er best.“

Pétur vitnar í orð Nikos Mertzanidis hjá CLIA sem hann lét falla í heimsókn sinni í júní og segir þau lýsa mikilvægi samstarfsins um þessi mál, en hann sagði: „Sérhver áfangastaður skemmtisiglinga er einstakur og ég lít svo á að samvinna og opnar samræður séu lykillinn að því að tryggja gestum og íbúum frábæra upplifun.“