Fara í efni
Skip dagsins

Sögupersónur sem allir þekkja – eða hvað?

AF BÓKUM – 56

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Aija Burdikova_ _ _

Drakúla eftir Bram Stoker (1897)

Frankenstein eftir Mary Shelley (1818)

Í sumar fékk ég tækifæri til að fara til Rúmeníu og ferðast um Transilvaníu, stað sem ég hafði ekki sérstaklega hugsað mér að heimsækja. Ég vissi frekar lítið um landið, en það sem ég tengdi mest við svæðið var greifinn Drakúla, og líklegt er að ég sé ekki sú eina um það. Þess vegna ákvað ég að lesa bókina fyrir ferðina. Hún er ein af þessum bókum sem manni finnst eins og maður hafi lesið eða hefði átt að lesa einhvern tímann, en það hafði samt aldrei gerst.

Drakúla er skrifuð í bréfformi og dagbókarfærslum. Bókin var miklu minna hryllingsleg en ég bjóst við, og stór hluti hennar fjallar um veika konu sem fólk reynir að átta sig á hvað sé að. Það kom mér á óvart að atburðir bókarinnar gerast að mestu leyti í Bretlandi. Einnig reyndust brúðir Drakúla hafa mun minna hlutverk í bókinni en ég hafði haldið. Síðasti hluti bókarinnar fannst mér mest spennandi, þar sem kapphlaup setur tóninn – slíkt finnst mér einmitt svo spennandi í bókum.

Eftir lestur Drakúlu ákvað ég að lesa aðra klassík, Frankenstein en ég vissi frekar lítið um söguþráð bókarinnar. Mér hefur alltaf þótt ótrúlegt að hryllingssaga eftir konu á þessum tíma sé enn vinsæl í dag. Eftirminnilegast fannst mér persónuþróun skepnunnar: ljúf vera sem er alltaf ein þráir ekkert heitara en að eiga vini. En útlit hans kemur í veg fyrir að nokkur vilji vera í samskiptum við hann. Í einmanaleikanum verður hann reiður við skapara sinn og breytist í grimmt og árásargjarnt skrímsli.

Bækurnar eiga það sameiginlegt að bæði Drakúla og Frankenstein eru heimsfrægar sögupersónur sem allir þekkja, en mér fannst gaman að kynnast upprunalegu persónunum eins og þær birtast í bókunum – ekki í gegnum túlkanir annarra, til dæmis í kvikmyndum.

Það var svo skemmtileg tilbreyting að lesa bækur sem voru skrifaðar fyrir svo löngu síðan, þar sem tungumálið og samskiptin milli fólks eru svo ólík því sem við erum vön í dag. Ég las þær báðar á frummálinu, ensku, en þær eru báðar einnig til á íslensku á bókasafninu. Ensku útgáfurnar eru líka aðgengilegar á Rafbókasafninu, bæði sem rafbækur og hljóðbækur.