Fara í efni
Skip dagsins

Skemmtiferðaskipum fylgja ýmsar áskoranir

Sky Princess við bryggju á Akureyri fyrr í sumar. Ferlíkið er með mörg mannabein í maganum; farþegar og áhöfn slaga hátt í fimm þúsund. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Bæjarráð Akureyrar segir ekki hægt að skauta framhjá því að fjölgun á komum skemmtiferðaskipa fylgi ýmsar áskoranir. Fjallað var um komur skemmtiferðaskipa á fundi ráðsins í gærmorgun, sérstaklega í ljósi fjölgunar skipa sem hingað koma á þessu ári.

Í bókun bæjarráðs er bent á nauðsyn þess að á næstu árum verði áfram unnið að uppbyggingu innviða fyrir raftengingu skipa. Þá fagnar bæjarráð upptöku EPI umhverfiseinkunnakerfisins sem vonandi muni nýtast þannig að umhverfisvænni skip fái ívilnanir en önnur álögur, eins og segir í bókun ráðsins.

  • Akureyri.net fjallar á næstu dögum ítarlega um skemmtiferðaskip og áhrif heimsókna þeirra, frá ýmsum hliðum.

Á fundi bæjarráðs var lagt fram minnisblað Péturs Ólafssonar hafnastjóra þar sem hann upplýsir um hinar ýmsu hliðar á þessum málum. Þar kemur meðal annars fram að ekki sé gert ráð fyrir mikilli fjölgun á næsta ári, en ein af ástæðum fjölgunar á þessu ári er innrás Rússa í Úkraínu. Fram kemur í minnisblaði Péturs að alls muni skemmtiferðaskip koma 279 sinnum í hafnir Hafnasamlags Norðurlands, þar af 217 sinnum til Akureyrar, sjö sinnum til Hríseyjar, 54 sinnum til Grímseyjar og í sumar kom í fyrsta skipti skemmtiferðaskip til Hjalteyrar.

Frá skoðunarferð gesta, þar á meðal bæjarfulltrúa, um borð í risaskemmtiferðaskipið Sky Princess fyrr í sumar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Farþegar skemmtiferðaskipa koma aftur

Pétur bendir á að þrátt fyrir talsverða fjölgun á komum skemmtiferðaskipa hafi engir áberandi hnökrar orðið í þjónustunni við skipin og innviðir, sem þoli álag vel, hafi verið vel nýttir.

Niðurstaðan er áhugaverð Íslandsheimsókn fyrir allan þann fjölda gesta sem kynnast Íslandi fyrst með komu sinni á skemmtiferðaskipi. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir framtíð íslenskrar ferðaþjónustu þar sem rannsóknir sýna að ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum koma oft aftur til lengri dvalar í landi,segir Pétur meðal annars í minnisblaðinu.

Bókun bæjarráðs er í heild svohljóðandi:

Komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar hafa aukist síðustu ár og ljóst að komur skipanna hafa jákvæð áhrif á efnahag og atvinnulíf bæjarins, auk þess að setja svip sinn á bæjarlífið að sumarlagi. Það er þó ekki hægt að skauta fram hjá því að fjölgun á komum skemmtiferðaskipa fylgja ýmsar áskoranir. Nauðsynlegt er að á næstu árum verði áfram unnið að uppbyggingu innviða fyrir raftengingu skipa til þess að skemmtiferðaskip, sem og önnur skip, sem viðkomu hafa í höfnum geti tengst rafmagni í landi. Bæjarráð fagnar því að Hafnasamlag Norðurlands áformi að taka upp EPI umhverfiseinkunnakerfi sem vonandi mun nýtast þannig að umhverfisvænni skip fái ívilnanir en önnur álögur. Þá skuli unnið markvisst að því að dreifa álagi og lengja ferðatímabilið. Hafnasamlagið, Akureyrarbær og aðrir hagaðilar, s.s. önnur sveitarfélög og Markaðsstofa Norðurlands, ættu að sameinast um að kortleggja ávinning og áskoranir vegna komu skemmtiferðaskipa og móta aðgerðaáætlun, sem miðar að arðsamri og samkeppnishæfri starfsemi í sátt við samfélag og umhverfi.