Fara í efni
Skip dagsins

Fyrirtæki blómstra, fólkið með atvinnu

SKEMMTIFERÐASKIPIN - VI

Því er iðulega haldið fram að skemmtiferðaskip og farþegar þeirra skilji ekkert eftir sig í landi, fólk gangi um, kaupi hvorki vörur né þjónustu og neyti allra máltíða um borð. Svo er hins vegar ekki að sögn fólks í atvinnulífinu.

Akureyri.net hafði samband við forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja og stofnana sem hafa tekjur af því að þjónusta farþega skemmtiferðaskipa.

Rútuferðirnar ekki allar burt úr bænum

Þegar því er haldið fram að farþegarnir skilji ekkert eftir sig er gjarnan hnýtt við að þeir hoppi flestir upp í rútur sem flytji þá burt úr bænum. Þeir fara þá eitthvert, þurfa þjónustu, næringu og kaupa minjagripi svo eitthvað sé nefnt. Og rúturnar, þær hvorki reka sig né aka sér sjálfar. Þar eru fyrirtæki með fólk í vinnu sem sjá um að útvega þessum farþegum rútufarið út og suður.

SBA-Norðurleið er risi á norðlenskum rútumarkaði svo það liggur beint við að heyra hljóðið í Gunnari M. Guðmundssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. SBA-Norðurleið fer með þúsundir farþega skemmtiferðaskipa í skoðunarferðir um Akureyri og nágrenni. Takið eftir að ferðirnar eru ekki allar burt úr bænum, eins og stundum er haldið fram. Gunnar segir viðhorf SBA-Norðurleiðar almennt jákvætt til komu skemmtiferðaskipa þó vissulega megi huga betur að ýmsum skipulagsþáttum.


Skyggnið var ekkert sérstakt þegar JEWEL OF THE SEAS lagði að Oddeyrarbryggjunni 15. maí, en rúturnar biðu í röðum og í hverri rútu að sjálfsögðu bílstjóri og leiðsögumaður sem vinna við að flytja farþegana út og suður. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Líklega um 30 heilsársstörf hjá SBA-Norðurleið

Gunnar setur upp einfalt reikningsdæmi miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar á þessu ári og fjölda farþega með þeim. Samkvæmt upplýsingum á vef Akureyrarhafnar, port.is, koma hingað 85 skip í samtals 271 skipti á árinu. Farþegar þessara skipa eru um 287 þúsund og í áhöfnum tæplega 129 þúsund manns.

Ef til dæmis er miðað við að um 55% farþegana fari í ferðir með SBA-Norðurleið eru það um 158 þúsund farþegar á þessu ári. Að meðaltali gætu verið um 45 manns í ferð og þá eru rútuferðirnar samtals 3.500 talsins. Í hverri rútuferð gætu verið tvö dagsverk og því um 7.000 dagsverk samtals á þessu ári. Einn starfsmaður skilar 240 dagsverkum á ári og því má reikna með að aðeins hjá SBA-Norðurleið séu sem svarar um 28-30 heilsársstörf eingöngu við akstur með farþega skemmtiferðaskipa. Á annasömum dögum við skipaþjónustu segir Gunnar geta verið um 70 brottfarir frá bryggju í ferðir sem taka tvo til átta tíma og því falli til um 100 dagsverk á slíkum dögum.

Hjá SBA-Norðurleið starfa um 75 manns árið um kring, en starfsfólki fjölgar verulega yfir sumartímann þegar fyrirtækið er með um 250 manns í vinnu, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi.

Ljósmynd: Axel Darri Þórhallsson

Skógarböðin eru vinsæll viðkomustaður

Íris Ósk Gísladóttir, sölu- og markaðsstjóri Skógarbaðanna var ekki með tölur á reiðum höndum yfir þann fjölda gesta úr skemmtiferðaskipum sem heimsækja Skógarböðin enda er enn háannatími og greiningarvinna á dagskrá þegar skipatímabilinu lýkur. Þá kemur í ljós hvort eða hve miklir toppar eru í gestakomum á sömu tímum og skip eru við bryggju.

Íris Ósk sagðist þó geta fullyrt að þessi hópur hefði verulega þýðingu fyrir rekstur baðanna. „Það eru virkilega margir gestir sem koma af skemmtiferðaskipunum. Það er mjög algengt að við fáum bókanir í gegnum ferðaskrifstofur sem bóka hópa úr skipunum, allt frá 20 upp í 50 manns í hverjum hópi, nokkrum sinnum í viku,“ segir Íris Ósk. Hún hóf störf hjá Skógarböðunum í júní, en starfaði áður sem umboðsmaður fyrir skemmtiferðaskip og er því með góð sambönd í þessum geira.

Áhersla á velferð áhafnarmeðlima

Auk farþega skemmtiferðaskipanna er líka áhugavert að útgerðir þeirra hafa í auknum mæli, sérstaklega eftir heimsfaraldurinn, lagt áherslu á velferð áhafnarinnar og vilja gera eitthvað fyrir fólkið sitt. Íris Ósk segir útgerðir hafa haft samband við Skógarböðin að fyrra bragði eftir að hafa heyrt vel af þeim látið og óskað eftir að bóka fyrir hópa úr áhöfn. „Ég er sjálf búin að gera samninga við nokkrar útgerðir sem hafa verið að huga að velferðarmálum og vilja gera vel við áhafnarmeðlimi,“ segir Íris Ósk.

Skógarböðin eru með áætlunarferðir frá Hofi daglega frá kl. 10 til 18 og segir Íris Ósk þær ferðir mikið notaðar af farþegum skipanna.

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í sögugöngu um Innbæinn þegar forsetahjónin voru í opinberri heimsókn á Akureyri fyrir skemmstu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Menningarferðaþjónustan mikilvæg

Haraldur Þór Egilsson á Minjasafninu segir aðspurður að starfsfólk þar hafi átt í áralöngum samskiptum og viðskiptum við skemmtiferðaskipin og hafi af því góða reynslu. Á söfnin komi fjölmargir gestir úr skipunum og sértekjurnar sem söfnin afla þannig skipti þau verulegu máli. Það eru ekki aðeins skipulagðar hópferðir í söfnin sem skila þeim gestum heldur einnig fólk á eigin vegum.

Gamli bærinn í Laufási er langvinsælastur af þeim söfnum sem heyra undir Minjasafnið, en gestir koma einnig í Minjasafnið, Nonnahús og leikfangasafnið. Heimsóknir á þessi söfn hafa verið fleiri í sumar en nokkru sinni áður. Haraldur áætlar að 20-25 þúsund manns úr skemmtiferðaskipunum komi við í Laufási og alls um 35 þúsund manns í söfnin öll.

Gestir safnanna greiða ekki aðeins aðgangseyri því til dæmis er til sölu í Laufási fjölbreytilegt handverk unnið af heimafólki á Akureyri og í Eyjafirði, líklega um tuttugu manns sem hafa þar ágætis aukatekjur. Haraldur segir meiri sölu í ár en búist var við.

Á tímum heimsfaraldursins sást glögglega hve mikla þýðingu þessi fjöldi erlendra ferðamanna hefur fyrir stofnanir eins og Minjasafnið. Haraldur segir það hafa verið flókið að halda úti rekstri á þessum söfnum í heimsfaraldrinum þegar heimsóknir fóru niður í átta þúsund í stað þeirra 50 þúsund gesta sem heimsækja söfnin árlega.

Fyrri greinar: