Fara í efni
Skip dagsins

Einstakt tækifæri til umburðarlyndis?

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

SKEMMTIFERÐASKIP - IV

Viljum við fá fólk til landsins, í bæinn okkar eða ekki? Þegar heimsfaraldur stöðvaði nær öll ferðalög á milli landa hafði það gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna, en áhrifin voru þó að hluta jákvæð því líklega hafa Íslendingar sjaldan eða aldrei ferðast jafn mikið innanlands og árið 2020. Þessu er þó slegið hér fram án rannsókna eða heimilda.

Árin fyrir heimsfaraldurinn hafði ferðamannastraumur til landsins aukist mjög og reyndi sá fjöldi sem hingað kom á ýmis þolmörk. Nú er allt komið á fullt að nýju og ferðafólk streymir til landsins eftir ýmsum leiðum.

Í bæklingi Cruise Iceland er bent á að samkvæmt könnun sem gerð var 2018 hafi 73% farþeganna talið Íslandsheimsóknina hafa farið fram úr væntingum eða staðist væntingar. Ísland fær þar alls staðar meira en fjóra á skalanum einn til fimm, nema fyrir verðlagið. Í könnuninni kom einnig fram að 78% farþeganna hafi keypt sér kynnisferð um landið og 85% sögðust mæla með Íslandsheimsókn.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Ferðast eða ekki?

Fyrr í þessari umfjöllun var spurt hvort við ættum hreinlega að hætta að ferðast til að draga úr mengun eða umhverfisfótspori. Í tengslum við fjölgun ferðamanna er einnig spurt hvort þörf sé á sérstökum aðgerðum til að takmarka fjöldann, meiri stýringu, vandaðra vali á því hvers konar ferðafólk við viljum, og svo framvegis.

Fjöldinn getur valdið óþægindum, jafnvel skemmdum á vinsælum ferðamannastöðum ef við hugum ekki að undirbúningi og uppbyggingu innviða. Gerum staðina betur í stakk búna til að taka við fólkinu. Fjöldinn virðist einnig valda íbúum óþægindum þegar stór og/eða mörg skemmtiferðaskip eru við bryggju samtímis. Fólkið fer í land, gengur um miðbæinn og nágrenni og nýtur þess að upplifa fallega bæinn okkar. Erum við á móti því? Viljum við ekki fá fólk í bæinn okkar, eiga samskipti við fólk frá öðrum heimshornum?

Það er líka áhugavert að velta fyrir sér viðhorfi Íslendinga til ferðafólks því við ferðumst líklega meira en flestar aðrar þjóðir og við viljum að sjálfsögðu að vel sé tekið á móti okkur þar sem við tyllum niður fæti. Eða viljum við ekki annars að það sé vel tekið á móti okkur þegar við förum til Tenerife að taka tásumyndir?

Ýtir undir umburðarlyndi

Segja má að með komum skemmtiferðaskipa og ferðamennsku almennt fylgi ákveðinn menningarlegur ávinningur, fyrir utan þann efnahagslega sem hugað verður að síðar í þessari umfjöllun. Í pistli Péturs Ólafssonar hafnarstjóra sem hér hefur áður verið vitnað til bendir hann á að komur skemmtiferðaskipa geti stuðlað að fjölbreyttri bæjarmenningu.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

„Hvert skip flytur fjölbreyttan hóp farþega frá mismunandi heimshornum, sem veitir einstakt tækifæri fyrir heimamenn til að eiga samskipti við fólk með mismunandi bakgrunn, hefðir og sjónarmið. Þessi menningarsamskipti ýta undir gagnkvæman skilning, umburðarlyndi og þakklæti en gera gestum líka kleift að upplifa hlýju og gestrisni Akureyringa. Með því að halda vel utan um gesti okkar, höfum við skapað varanlegar minningar og vináttu sem fara yfir landamæri og stuðla að meira samstilltara alþjóðlegu samfélagi,“ skrifar Pétur.

Mest stýrða ferðamennskan

Er mögulegt að gremju fólks vegna „frjálsra“ ferðamanna, þeirra sem koma til landsins með sín eigin farartæki eða leigja farartæki hér á landi og ferðast á eigin vegum, og vegna þess hve þeim hefur fjölgað, sé að ósekju beint að farþegum skemmtiferðaskipa?

Pétur segir stjórnunina vera til fyrirmyndar fyrir ferðaþjónustuna og bendir á að það sem af er sumri hafi þjónusta við skipin og farþegana gengið mjög vel, sem þakka megi samstilltu átaki fjölmargra hagaðila.

Hann segir undirbúning hafa staðið yfir í allan vetur þegar ljóst varð hve mikill áhugi var á meðal útgerða skemmtiferðaskipa að heimsækja Akureyri. Þar hafi komið að málum Akureyrarhöfn, sveitarfélagið, útgerðir og umboðsfyrirtæki skipanna, fyrirtækjaeigendur og fleiri hagaðilar sem unnu saman að því hörðum höndum að innleiða árangursríkar aðgerðir til að skapa meiri sátt um ferðaþjónustuna. „Regluleg samræða og samvinna hefur stuðlað að sameiginlegri sýn á sjálfbæra ferðaþjónustu þar sem hagvöxtur helst í hendur við umhverfisábyrgð,“ skrifar Pétur.

Skipulagt með tveggja ára fyrirvara

Í pistlinum bendir Pétur á að þjónusta við farþega skemmtiferðaskipa sem fara í land sé skipulagðasti hluti ferðaþjónustunnar í landinu. Skipin eru bókuð með tveggja ára fyrirvara og vitað um tímasetningar, hvaða þjónustu er þörf og svo framvegis.

Það er líka áhugavert að velta fyrir sér áhrifum þess að hagaðilar hér þjónusta skipin og farþegana á þjónustu sem hér er í boði allan ársins hring. Um þetta segir Pétur:

„En ekki síst þá gera þessi farþegar okkur kleift að halda uppi þjónustu fyrir íbúana hér, allt árið um kring, sem annars væri lakari rekstrargrundvöllur fyrir. Það endurspeglast líka í könnunum á meðal farþega skemmtiferðaskipa að áhugaverðustu áfangastaðirnir leiða til hefðbundins ferðalags síðar. Þar kemur fram að siglingin var grundvöllur lengri heimsóknar á áfangastað sem þeim líkaði þar sem flogið var á áfangastaðinn og gist á gististöðum í um þriðjungi tilfella. Ólíkt þjónustuframboð hér á landi á milli sumars og veturs hentar vel fyrir þess konar eftirfylgni ferðamannsins.“


Akureyri séð úr brúnni á Sky Princess. Það er eiginlega ekki nema von að fólk sækist eftir því að heimsækja bæinn okkar. Akureyri hefur alla burði til að næla sér í stærri bita af kökunni vegna þess hve bærinn hefur upp á margt að bjóða. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Þjónustustigið á þeim stöðum sem skipin heimsækja er svo önnur grein af sama meiði og skiptir auðvitað máli hve vel við stöndum okkur í móttöku og þjónustu við farþegana, hve fjölbreytt og gott framboðið er í landi. Þar getur einmitt verið tækifæri fyrir Akureyrarhöfn, þjónustufyrirtæki á Akureyri og íbúana að ná sér í stærri bita af kökunni þar sem framboð þjónustu og verslunar á Akureyri er mun meira en til dæmis á Ísafirði eða mörgum öðrum stöðum þar sem skipin hafa viðkomu. Akureyri er í raun stórborg í sér miðað við hve lítill bærinn er. Stór að innan, eins og samkomuhúsið í kvikmyndinni Með allt á hreinu.

Uppgangi fylgir núningur

„Gæði landsins eru takmörkuð og sitt sýnist hverjum um aðgengi að þeim gæðum,“ ritar Pétur í pistlinum, og heldur áfram: „Hvað skemmtiferðaskipin varðar má þó segja að hann sé sá skipulagðasti í ferðaþjónustunni – lykilorðið hér er stjórn. Öllu er stýrt og hvergi eru eins margir þættir fyrirsjáanlegir eins og við komu skemmtiferðaskipa til landsins. Við vitum með tveggja ára fyrirvara hvaða skip kemur og hvenær, við vitum hvaða þjónustu hvert skip þarf í landi. Við vitum hve mikil vatnsneyslan er um borð. Við vitum meira að segja nákvæmlega hvað fellur mikið til af endurvinnanlegum úrgangi og hvar hann er endurunninn. Allt sem viðkemur skemmtiferðaskipum er skráð inn og út. Það er einmitt af þessum sökum sem skemmtiferðaskip eru lítið viðbótarálag á innviði landsins, því það er hægt að skipuleggja svo til alla þjónustuna við skipin, út í eitt.“

Pétur bendir jafnframt á að fjölgun skipakoma nú sé óvenjuleg og stafi af átökunum í Úkraínu sem hafi haft áhrif á áfangastaði í Eystrasalti þangað sem skipin vöndu komur sínar áður. Í dag sé meira að segja ítrekað verið að neita beiðnum um skipakomur yfir háannatímann enda séu margar hafnir og áfangastaðir bókuð til fulls.