Bílhræin fjarlægð frá Ytra-Krossanesi

Verktaki á vegum Akureyrarbæjar fjarlægði í dag um 40 bifreiðar og tæki sem komið hafði verið fyrir á lóð bæjarins í Ytra-Krossanesi. Farið var með bifreiðarnar á móttökusvæði Hringrásar steinsnar frá staðnum þar sem þær hafa staðið í rúmt ár.
Akureyri.net hefur áður fjallað um geymslu númerslausra bifreiða í bæjarlandinu og á lóð að Hamragerði 15 á Akureyri, auk starfsvæðis Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd. Brögð hafa verið að því á undanförnum árum að númerslausar bifreiðar hafi dúkkað upp hér og þar um bæinn. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur ítrekað á undanförnum árum beint tilmælum og gert kröfur um tiltekt til þeirra sem hafa með áðurnefndar lóðir að gera, lagt á dagsektir og gengið eftir innheimtu þeirra með hefðbundnum aðferðum. Nú virðist loks kominn einhver skriður á þau mál.
Síðasti bíllinn sem dreginn var frá Ytra-Krossanesi á leið inn um hliðið á móttökusvæði Hringrásar í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Bráðabirgðasamningur í júní í fyrra
Í fyrrasumar var gerður bráðabirgðasamningur milli Akureyrarbæjar og Auto ehf. um að fyrirtækið fengi leyfi til að fjarlægja bíla sem staðsettir voru í bæjarlandinu og safna þeim saman á lóð bæjarins í Ytra-Krossanesi. Samningurinn gilti upphaflega fram á haust, en var svo framlengdur til 15. maí þar sem skemmdarverk höfðu verið unnin á bifreiðunum og taldi eigandinn sig þurfa tíma til að meta tjónið.
Fíflarnir í Ytra-Krossanesi létu sér fátt um nærveru bílhræjanna finnast í byrjun júní þegar þessi mynd var tekin. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Þegar akureyri.net fjallaði um málið í byrjun júní var enn allt við það sama í Ytra-Krossanesi. Það breyttist í morgun. Einhvers konar samkomulag var gert um framlengingu þar til í gær og rann fresturinn út án þess að eigandinn fjarlægði bílana. Í dag var því gripið til þess ráðs að fá verktaka til að flytja bifreiðarnar á endastöð, þangað sem þær áttu alltaf að fara, í móttökuport Hringrásar að Ægisnesi 1, sem vill svo til að er aðeins nokkur hundruð metrum frá geymslustaðnum í Ytra-Krossanesi.
Fljótlega eftir að bifreiðarnar voru fluttar í Ytra-Krossanes voru unnin skemmdarverk á þeim og varla heila rúðu að sjá á svæðinu. Myndir: Haraldur Ingólfsson.