„Bæði andlit og heili fyrstu þotu Íslendinga“

SÖFNIN OKKAR – 83
Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Safngripur vikunnar er stjórnklefi af TF-FIE, Gullfaxa, fyrstu þotunni í eigu Íslendinga.
Þotan var af gerðinni Boeing 727-108C og var í eigu Flugfélags Íslands. Hún markaði tímamót í íslenskri flugsögu þegar hún kom til landsins þann 24. júní 1967. Hún var í notkun hérlendis á vegum Flugfélagsins og síðar Flugleiða fram í ársbyrjun 1985.
Gullfaxi kom til landsins 24. júní 1967. Flugvélin lenti á Reykjavíkurflugvelli þar sem fjölmenni beið og fagnaði komu fyrstu þotu Íslendinga. Flugstjóri var Jóhannes R. Snorrason yfirflugstjóri Flugfélags Íslands. Hann ólst upp á Akureyri og hóf flugferil sinn hjá Svifflugfélagi Akureyrar. Mynd: Snorri Snorrason
Í september árið 1979 fékk vélin einkennisstafina TF-FLH til samræmis við aðrar flugvélar Flugleiða sem frá þeim tíma báru allar einkennistafi í „FL-“ seríunni.
Í janúar 1984 var þotan seld fyrirtækinu TAG Leasing í Bandaríkjunum, en var leigð af því fyrirtæki fram til febrúar 1985. Síðar komst hún í eigu bandaríska flutningafyrirtækisins UPS og var í notkun hjá því fyrirtæki þar til að henni var lagt í Roswell í Nýju Mexíkó þann 24. júlí 2007. Heildarflugtími vélarinnar var þá orðinn 48.581 klukkustund og heildarhreyfingar 31.647 talsins.
Arngrímur B. Jóhannsson og Hafþór Hafsteinsson afhentu Flugsafninu stjórnklefann formlega að gjöf 1. nóvember 2008. Hann er sannarlega glæsilegur safngripur og vekur ávallt mikla athygli gesta.
En hvernig komst stjórnklefinn af fyrstu þotu Íslendinga frá Nýju Mexíkó á Flugsafn Íslands?
Flugmennirnir Arngrímur B. Jóhannsson, stofnandi flugfélagsins Atlanta, og Hafþór heitinn Hafsteinsson, forstjóri félagsins 2001-2007, komust á snoðir um að búið væri að leggja flugvélinni og ákváðu að kaupa hana svo varðveita mætti hluta af henni. Var stjórnklefinn sagaður af og skrokkurinn seldur í brotajárn.
Jóhannes R. Snorrason yfirflugstjóri Flugfélags Íslands. Mynd: Snorri Snorrason.
Stjórnklefinn var síðan fluttur frá Bandaríkjunum til Akureyrar og komið fyrir í sýningarsal Flugsafnsins sumarið 2008. Skipt hafði verið um mælitæki í stjórnklefanum þegar hann var í eigu UPS og var unnið að því að safna eldri mælitækjum svo færa mætti útlit hans til fyrra horfs. Ytra byrði stjórnklefans var málað í litum Flugfélags Íslands og sáu hjónin Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir um það verk og gerðu listavel.
Stjórnklefinn var afhentur Flugsafninu formlega til varðveislu við hátíðlega athöfn 1. nóvember það sama ár. Við það tækifæri sagði Svanbjörn heitinn Sigurðsson safnstjóri Flugsafnsins: „Þetta er stórgjöf; stjórnklefi og nef á sjálfum Gullfaxa. Áhugaverðasti hluti þessarar merku flugvélar er að sjálfsögðu stjórnklefinn sem segja má að sé bæði andlit og heili þessarar fyrstu þotu Íslendinga. Þetta er stórmerkilegur safngripur.“
Stjórnklefinn kom til Akureyrar sumarið 2008. Mynd: Pétur P. Johnson
Gullfaxi var afhentur Flugsafninu við hátíðlega athöfn 1. nóvember 2008. Hafþór Hafsteinsson flugmaður og forstjóri Atlanta 2001-2007, til hægri, og Hjörleifur Jóhannesson flugstjóri, sonur Jóhannesar R. Snorrasonar. Mynd: Pétur P. Johnson
Hjónin Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir máluðu stjórnklefann í litum Flugfélags Íslands. Hér er Snorri að lappa upp á hann í júní 2022.
Stjórnklefi Gullfaxa að innan. Skipt hafði verið um mælitæki í stjórnklefanum þegar hann var í eigu UPS og var unnið að því að safna eldri mælitækjum svo færa mætti útlit hans til fyrra horfs.