Yfirburðir Þórs í sigri á Grindvíkingum

Þórsarar sigruðu Grindvíkinga 4:3 á útivelli í gær í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þrátt fyrir að aðeins munaði einu marki þegar flautað var af höfðu Þórsara yfirburði og það var ekki fyrr en á lokaandartökunum sem Grindvíkingar gerðu þriðja mark sitt þannig að sigurinn var aldrei í hættu.
Þór er í fjórða sæti deildarinnar að fjórum umferðum loknum. Liðið er með sjö stig eftir tvo sigra, eitt jafntefli og eitt tap. Keflavík er efst með níu stig, Njarðvík og ÍR eru með átta og Þróttarar með sjö eins og Þórsarar.
Orri Sigurjónsson gerði þriðja mark Þórs í gær. Það var fyrsta mark Orra fyrir uppeldisfélagið síðan í júní árið 2021.
Ekki voru liðnar nema rúmlega tvær mínútur þegar Grindvíkingar náðu forystunni. Ingi Þór Sigurðsson skoraði eftir skyndisókn en þar með var sóknarframlag heimaliðsins að mestu upp talið í fyrri hálfleiknum. Þórsarar tóku völdin og sóttu linnulítið allt þar til flautað til leikhlés. Þeir létu markið ekki á sig fá, voru yfirvegaðir, héldu boltanum vel og voru komnir yfir áður en leikurinn var hálfnaður.
Þór jafnaði á 28. mín. með sjálfsmarki. Clemant Bayiha komst inn í vítateig hægra megin, einu sinni sem oftar, og þegar Viktor Guðbergur Hauksson, fyrirliði Grindvíkinga, hugðist stöðva fasta fyrirgjöf sendi hann boltann í eigið mark.
Tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið náði Sigfús Fannar Gunnarsson forystunni fyrir Þór. Skoraði þá með föstu skoti af stuttu færi eftir sendingu Ingimars Arnars Kristjánssonar.
Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Hann byrjaði eins: Grindvíkingar skoruðu eftir um það tvær mínútur en síðan tóku Þórsarar við stjórninni.
Breki Þór Hermannsson skallaði í stöng Þórsmarksins á 47. mín. eftir fyrirgjöf, náði frákastinu sjálfur og setti boltann í markið.
Orri Sigurjónsson kom Þór yfir á ný þegar um 70 mínútur voru liðnar. Atli Þór Sindrason, sem var nýkominn inn á, skaut að marki, Árni Salvar í Grindavíkurmarkinu varði glæsilega en Orri fékk boltann og skoraði af öryggi. Hann fagnaði að vonum vel; bæði var mikilvægt að komast yfir aftur, auk þess sem þetta var fyrsta mark hans fyrir Þór síðan í júní 2021. Orri lék með Fram síðustu tvö ár en sneri heim á ný í vetur.
Sigfús Fannar Gunnarsson gerði annað mark sitt og fjórða mark Þórs þegar korter var eftir. Mikill kraftur var í Sigfúsi í gær og hann kom boltanum í markið eftir baráttu í teignum.
Það var ekki fyrr en flestir töldu að uppgefinn viðbótartími væri liðinn að Grindvíkingar gerðu þriðja markið. Þeir fengu víti og Ármann Ingi Finnbogason.
Sigur Þórs var mjög sanngjarn eins og áður kom þeir. Þeir voru sannfærandi, hefðu átt að skora fleiri mörk og satt að segja er það lygilegt að munurinn í lokin hafi aðeins verið eitt mark!
Þórsarar fá Fylkismenn í heimsókn í næstu umferð, á föstudagskvöldið kemur, og síðan er komið að að Norðurlandsslag: Þór sækir lið Völsungs heim á Húsavík miðvikudagskvöldið 4. júní. Liðin hafa ekki mæst á Íslandsmóti síðan árið 2005, það var einnig í næst efstu deild og Þórsarar sigruðu þá 3:1.