Fara í efni
Fréttir

VMA brautskráði 183 nemendur í gær

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari flytur ræðu við brautskráningu frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í gær. Mynd: vma.is.

Verkmenntaskólinn á Akureyri brautskráði í gær 183 nemendur af 20 námsbrautum. Þetta er einn fjölmennasti brautskráningarhópur í tæplega fjörutíu ára sögu skólans, að því er fram kemur í frétt á vef hans.

Samtals brautskráði skólinn 276 nemendur á þessu skólaári því 93 höfðu áður verið brautskráðir á haustönn. Brautskráningin fór fram við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í gær að viðstöddu fjölmenni og var athöfninni streymt á YouTube-rás skólans. Alls brautskráðust 20 nemendur með tvö skírteini og því samtals afhent 209 skírteini við athöfnina.

VMA brautskráði í gær í fyrsta skipti verðandi framreiðslufólk og þá má einnig nefna að brautskráður var hópur húsasmiða sem stundaði nám sitt í kvöldskóla síðastliðna tvo vetur. Langflestir af þeim sem brautskráðust í gær voru í húsasmíði, eða 34.

Útskriftarhópur Verkmenntaskólans á Akureyri ásamt skólastjórnendum í gær. Ljósmynd: Páll A. Pálsson

Gerviheimur áhrifavaldanna

Fram kemur í ítarlegri umfjöllun um brautskráninguna á vef skólans að Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari hafi gert neyslusamfélagið að umtalsefni. Fólk kaupi og kaupi og það endi síðan í sóun á auðlindum, hráefni, tíma og fjármunum. Ruslið safnist upp, umhverfinu og jörðinni blæði og á sama tíma aukist ójöfnuður í heiminum með vatnsskorti, fátækt og stríðum. En við höfum hins vegar meiri áhuga á að vita hvað gerist í gerviheimi svokallaðra áhrifavalda eða í sumarbústöðum auðmanna. 

„Gerviheimurinn er þarna úti, við tökum þátt í honum og vonandi skilar þetta óhóf meiri hamingju út í samfélagið. En það ná ekki allir að upplifa þessa gerviveröld og þá kemur upp kvíðinn og óánægjan yfir því sem fólki finnst það vera að missa af. Við tölum allt of lítið um það að vera þakklát fyrir það sem við höfum, að það sé þetta dags daglega sem skiptir máli. Við erum okkar eigin gæfusmiðir að svo mörgu leyti. Við þurfum að gera meira af því að setja okkur í spor annarra og líka stoppa aðeins við í eigin sporum og líta inn á við. Við þurfum að vera óhrædd við breytingar og viðurkenna að sumt í lífinu sé erfitt. Það er eðlilegt að okkur líður stundum illa og sumt sem þarf að gera í lífinu er bara leiðinlegt. En ef við festum okkur um of í þeim hugsunum þá aukast líkurnar á því að okkur fer að líða verr. En stökkvum ekki á skyndilausnirnar, gefum okkur tíma til að líta í eigin barm, það gæti komið á óvart að ef við gefum okkur tíma í það að hugsa um styrkleika okkar þá færi lífið að ganga betur,“ sagði Sigríður Huld meðal annars í ræðu sinni við athöfnina.