Fara í efni
Menning

Vináttusamband Perú og Íslands í vatnslitum

Einn af virtari vatnslitamálurum samtímans, hinn 32 ára Jorge Corpuna, hélt tvö námskeið í Reykjavík um helgina og heldur eitt á Akureyri um næstu helgi. Uppselt var fyrir löngu á öll þrjú námskeiðin og biðlistar dágóðir, að sögn Akureyringsins Ragnars Hólm Ragnarssonar sem skipuleggur heimsókn Corpuna en þeir hafa kynnst á vatnslitahátíðum á Ítalíu og Spáni.
 
„Við Jorge höfum rætt þetta í nokkur ár, svona í hálfkæringi, en svo var ég á námskeiði hjá honum í Barcelona í fyrra og þá var þetta eiginlega fastmælum bundið,“ segir Ragnar Hólm við akureyri.net, spurður hvernig það komi til að þessi magnaði listamaður leggi leið sína hingað til lands.
 
„Þar kynntist ég líka Jorge Sales Lloret sem rekur Pinceladas de España og stendur fyrir námskeiðum með frægum listamönnum vítt og breitt um Spán. Hann gaf mér góð ráð um hvernig best væri að skipuleggja svona námskeið og þá var bara ákveðið að nafni hans Corpuna skyldi koma.“
 

Ragnar Hólm Ragnarsson og Jorge Corpuna frá Perú – stundum kallaður meistari ljóss og skugga.
Jorge Corpuna er stundum kallaður meistari ljóss og skugga en túlkun hans á birtu í landslagi er einstök og mjög áhrifarík, segir Ragnar Hólm. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir vatnslitamyndir sínar og verðlaun um allan heim. Jorge fæddist 1993 í Cusco í Perú og er útskrifaður í málaralist með áherslu á vatnsliti frá Listaháskólanum í Arequipa.
 
„Ég hef heillast mjög af stíl hans og verið hjá honum á námskeiðum þrisvar. Það er svo skrýtið að þegar maður fer á svona námskeið þá verður maður pínu týndur í eigin stíl, finnst maður allt í einu ekki kunna neitt, vera alveg glataður málari, en svo smám saman seytla áhrifin inn, ákveðið jafnvægi næst og manni tekst þannig að þróa sinn eigin stíl áfram.“
 
 
Nafnarnir Jorge Corpuna og Jorge Sales í Barcelona sumarið 2024
Jorge Corpuna hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir vatnslitamyndir sínar og verðlaun um allan heim. Hann fæddist 1993 í Cusco í Perú og er útskrifaður í málaralist með áherslu á vatnsliti frá Listaháskólanum í Arequipa. Sem sagt; aufúsugestur á ferð, en vert er að vekja athygli á því að Ragnar Hólm lætur ekki þar við sitja. Hann er með fleira á prjónunum.
 
„Já, í desember kemur Nicólas López sem er líka frá Perú og mjög þekktur fyrir sínar svörtu myndir og ákaflega persónulegan stíl. Ég veit hins vegar ekki ennþá hvort ég þori að koma með hann norður um hávetur ef það skyldi vera illfært á milli landshluta. Miðað við veðurfarið í sumar er maður bjartsýnn á að það verði leikur einn, en það er engu að treysta þegar veðrið er annars vegar.“
 

Nicólas López sem einnig er frá Perú og kemur til Íslands á vegum Ragnars Hólm.
 

Jorge Corpuna á einu námskeiðanna sem Ragnar Hólm hefur verið hjá honum.