Fara í efni
Mannlíf

Viltu heyra óskalög? Tækifærið er í kvöld!

Ívar Helgason, Óskar Pétursson og Eyþór Ingi Jónsson.

Óskalagatónleikar í Akureyrarkirkju hafa notið gríðarlegara vinsælda um verslunarmannahelgi árum saman. Þeir verða haldnir enn einu sinni í kvöld – söngvarinn Óskar Pétursson og Eyþór Ingi Jónsson organisti verða þar á ferð að vanda og nú hefur söngvarinn Ívar Helgason bæst í hópinn.

Óskalagatónleikar hafa verið haldnir í Akureyrarkirkju hátt í 20 ár. Fyrstu árin spilaði Eyþór einn á pípuorgelið en þeir Óskar hafa svo haldið tónleika frá 2008, með Covidhléum. Söngvarinn ástsæli, Ívar Helgason, tekur þátt í tónleikunum nú í fyrsta skipti sem fyrr segir, en þessir þrír tónlistarmenn vinna mikið saman.

Á efnisskrá eru nokkur hundruð lög sem tónleikagestir velja úr á staðnum. Það verður mikið líf og fjör á milli þess sem falleg tónlist verður flutt, segir í tilkynningu og óhætt að trúa því!

Þátttakendur eru, eins og það er orðað í tilkynningu:

  • Óskar Pétursson, söngvari, bifvélavirki og skemmtikraftur
  • Ívar Helgason, söngvari, leikari, dansari og þúsundþjalasmiður
  • Eyþór Ingi Jónsson, organisti og myndasmiður
  • Trausti Már Ingólfsson, hljóðmeistari

Eyþór leikur á flygil, Hammond, Rhodes og önnur hljómborðshljóðfæri á tónleikunum og Ívar leikur með á gítar.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00. Aðgangseyrir er 3.500 krónur og miðar seldir við innganginn.