Fara í efni
Fréttir

Vilja hafa áhrif á framtíð norðurslóða

Frá stofnfundi samtakanna á Akureyri í október 2019.
Frá stofnfundi samtakanna á Akureyri í október 2019.

Fulltrúar á fundi Samtaka bæjar- og sveitarstjóra á Norðurslóðum (The Arctic Mayors’ Forum, AMF), sem haldinn var með fjarfundabúnaði á mánudag, hvetja Norðurskautsráðið (The Arctic Council) til nánara samráðs við sveitarstjórnir um framtíð og þróun mála á Norðurslóðum. Fólk á Norðurslóðum stendur frammi fyrir þeirri áskorun að innleiða vistvænar lausnir til að glíma við afleiðingar loftlagsbreytinga og því ætti rödd þess að vega þungt innan Norðurskautsráðsins og vinnuhópa þess.

Á fundinum í gær flutti Michael Mann, sérstakur sendifulltrúi Evrópusambandsins í málefnum Norðurslóða, ávarp og hvatti AMF til áframhaldandi góðra verka í mikilvægum málefnum Norðurslóða.

Ísland hefur gegnt formennsku í AMF frá stofnun samtakanna og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, verið formaður. Á þessum tíma hafa ýmis brýn hagsmunamál Norðurslóða verið rædd og óformlegum tengslum m.a. verið komið á við vinnuhóp Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun á Norðurslóðum.

Í undirbúningi er að opna skrifstofu AMF í Tromsø í Noregi. Markmið AMF er að tryggja að sveitarstjórnir og kjörnir fulltrúar þeirra sem eiga aðild að samtökunum fái komið að ákvörðunum á öllum stigum stjórnsýslu sem varða framtíð þróunar og búsetu á Norðurslóðum. Þannig má tryggja að sjónarmið og hagsmunir íbúa ráði för við alla stefnumótandi ákvörðunartöku.

„AMF er mikilvægur vettvangur fyrir þróun lýðræðis og samvinnu á Norðurslóðum. Það er mjög mikilvægt að kjörnir bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúar hafi með sér samtök til að skiptast á skoðunum og miðla af reynslu sinni. Þannig verður skýrari sú ógn sem við stöndum frammi fyrir vegna loftlagsbreytinga og þau tækifæri sem við okkur blasa og við getum látið rödd okkar heyrast. Markmiðið er að tryggja að sjónarmið íbúa séu tekin með í reikninginn þegar ákvarðanir varðandi norðurslóðir eru teknar af ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum. Það er lykilatriði að íbúar norðursins láti að sér kveða í umræðunni um sjálfbæra samfélags- og efnahagsþróun, umhverfisvernd og loftlagsbreytingar,” segir Ásthildur Sturludóttir í tilkynningu.

  • Samtök bæjar- og sveitarstjóra á Norðurslóðum (AMF) voru formlega stofnuð á Akureyri í október 2019. Markmið samtakanna er að tryggja að sveitarstjórnir og kjörnir fulltrúar komi að öllum ákvörðunum sem teknar eru um framtíð Norðurslóða og tryggi að raddir íbúanna heyrist. Aðild að samtökunum eiga 16 fulltrúar og 2 áheyrnarfulltrúar frá öllum ríkjum Norðurslóða. AMF er vettvangur samvinnu og samráðs Norðurslóðaríkja við aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir á þessu sviði. AMF sækist eftir áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.