Fara í efni
Mannlíf

Vilja breyta kirkjunni í gististað

Húseiginin við Laxagötu 5 var byggð árið 1933 sem kirkja Aðventista en hefur í gegnum tíðina gegnt ýmsum hlutverkum. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Það er ekki á hverjum degi sem kirkjur eru auglýstar til sölu á Akureyri. Það gerðist þó um daginn þegar kirkjan við Laxagötu 5 fór á fasteignavefinn. Eignin stoppaði þó ekki lengi við.

Samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölunni Hvammi var mikill áhugi fyrir kirkjunni og bárust 10 tilboð í hana. Ásett verð var 19,9 milljónir en Akureyrarbær hafði forkaupsrétt á eigninni, svo framan af var það ákveðinn óvissuþáttur hvort bærinn myndi nýta sér forkaupsréttinn. Byggingarfélagið Fjölnir ehf. átti hæsta boð í eignina og fékk því kirkjuna þegar ljóst var að bærinn hafði ekki áhuga. Fyrirtækið er í eigu Magnúsar Guðjónssonar og fjölskyldu hans, sem á og rekur m.a. Hótel Kjarnalund.

Draumur að gista í gamalli kirkju

„Þetta er náttúrlega alveg einstakt hús og við sjáum kirkjuna sem spennandi verkefni til þess að gera upp,“ segir Hildur Magnúsdóttir aðspurð út í það hvað þau ætli sér með kirkjuna. Húsið er 80 fm að stærð og með stórum garði.

„Við vorum bara að fá eignina afhenta og höfum varla náð að skoða hana almennilega og endanleg ákvörðun liggur því ekki alveg fyrir varðandi nýtinguna.“ Eitt er víst að kirkjan verður a.m.k ekki rifin en þrátt fyrir sérstakt útlit hússins þá er það ekki friðað. „Það hefði verið virkilega sorglegt ef þetta hús hefði verið rifið, eins skemmtilegt og það er,“ segir Hildur og heldur áfram. „Ég sé fyrir mér að kirkjan gæti t.d. orðið að mjög sjarmerandi og sérstökum gististað fyrir ferðamenn, en það er að sjálfsögðu háð því hvort leyfi fáist fyrir slíkum rekstri. Það er örugglega algjör draumur að gista í gamalli kirkju. Það eru víða fordæmi fyrir því erlendis að afhelgaðar kirkjur séu gististaðir og ferðamenn sækja mikið í sérstaka gistingu. Útlit hússins er einstakt, með þessum turni, smárúðugluggum og steinblikki. Þá er lóðin ekki síður falleg.“ Hildur segir að fordæmi séu fyrir álíka gistingu á Íslandi en á Stöðvarfirði er að finna gististaðinn Kirkjubæ sem er í afhelgaðri kirkju.

Ásókn í sérstaka gististaði

Þegar kemur að óskum ferðaþjónustunnar þá veit fjölskyldan hvað hún er að tala um, enda hefur hún frá árinu 2011 verið í beinu sambandi við ferðamenn. Fyrst í gegnum útleigu á íbúðum til ferðamanna við Ráðhústorg en í dag í gegnum reksturinn á Hótel Kjarnalundi. Fyrirtækið á líka nokkur sumarhús sem það leigir út við Götu Sólarinnar sem og Höephnershúsið í Innbænum þar sem eru fjórar útleiguíbúðir. „Þegar ég hef farið á ferðamálaráðstefnur erlendis þá hef ég fundið fyrir aukinni ásókn eftir sérstökum gististöðum. Fólk hefur gaman af þessu gamla og sögunni. Við sjáum það líka mjög skýrt í íbúðunum í Höephnershúsinu en þar höfum við reynt að halda sem mest í verslunarsögu hússins. Gestir kunna virkilega að meta það,“ segir Hildur.

Margir vildu eignast Laxagötu 5 þegar eignin fór nýlega á sölu. Ásett verð var 19,9 milljónir.

Byggð af aðventistum

Þó Laxagata 5 hafi upphaflega verið byggð sem kirkja þá hefur hún minnst verið nýtt til helgihalds. Á heimasíðu Arnórs Blika Hallmundssonar má lesa nánar um sögu hússins en þar kemur m.a. fram að húsið hafi verið byggt árið 1933 af Aðventistasöfnuðinum sem nýtti það undir samkomuhald í einhver ár. Á 5. og 6. áratug síðustu aldar var rekin nudd- og ljóslækningastofa í húsinu. Árið 1961 keyptu Karlakór Akureyrar og Lúðrasveit Akureyrar húsið og nýttu sem æfingaaðstöðu og þá voru Slysavarnarkonur einnig með aðstöðu í húsinu um tíma. Félag Harmonikuunnenda við Eyjafjörð var síðasti eigandi hússins og hefur átt það frá árinu 2010. Við sölu hússins flytur F.H.U.E nú út í þorp þar sem harmonikkufélagið hefur keypt sér æfingaaðstöðu í iðnaðarbili í Njarðarnesi.

Gera upp Túliníusarhúsið

Þegar Hildur er spurð að því hvenær Laxagata 5 verði komin í gagnið með nýtt hlutverk segir hún að fjölskyldan sé alveg róleg, enda önnur verkefni á borðinu. Faðir hennar, Magnús, hefur komið nálægt fjölmörgum byggingarverkefnum í bænum síðastliðin 40 ár og er því enginn nýgræðingur þegar kemur að uppbyggingu og viðhaldi húsa. Undanfarið hafa þau staðið í uppgerð á öðru gömlu húsi í bænum, Hafnarstræti 18 eða Túliníusarhúsinu svokallaða. „Innbærinn er algjört gull og það var kominn tími á það að Túliníusarhúsið fengi andlitslyftingu, ætli við klárum það ekki fyrst,“ segir Hildur að lokum. Hún hefur sannarlega erft fasteignaáhuga föður síns.

Feðginin Hildur og Magnús fyrir utan gömlu Aðventistakirkjuna við Laxagötu 5 á Akureyri. Þau ætla að gera eignina upp og mögulega bjóða ferðamönnum þar gistingu.

Útidyrahurðin er merkt Félagi harmonikuunnenda við Eyjafjörð sem hafði aðsetur í húsinu í til fjölda ára. Félagið hefur nú keypt sér nýtt æfingahúsnæði í Njarðarnesi.

Byggingarfélagið Fjölnir ehf. hefur komið nálægt ýmsum byggingarverkefnum á Akureyri. Fyrirtækið á m.a. Hótel Kjarnalund, Túliníusarhúsið, til hægri á myndinni, og Höephnershúsiðm, til vinstri, í innbænum.