Viðburðaríkir dagar Sunnu Björgvinsdóttur

Sunna Björgvinsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í íshokkí og fyrrum leikmaður Skautafélags Akureyrar hefur upplifað sannkallað ævintýri að undanförnu. Landsliðsfyrirliði í sögulegum árangri, leiðtogaráðstefna í Tékklandi og fékk heimboð frá Svíakonungi, svo eitthvað sé nefnt.
Á vef Skautafélags Akureyrar er skemmtileg frásögn í máli og myndum af því sem hefur drifið á daga Sunnu að fundanförnu. Hún leikur íshokkí sem atvinnumanneskja í Svíþjóð og fór í úrslitaeinvígi með liði sínu Södertälje SK um sæti í efstu deild í Svíþjóð í vor. Eftir það leiddi hún kvennalandsliðið til besta árangurs í 25 ára sögu liðsins, eins og Akureyri.net hefur áður fjallað um, fór svo beint þaðan á leiðtogaráðstefnu stjórnenda í íshokkí kvenna á heimsvísu (Women's Worlds Player Leadership Summit) ásamt fyrirliðum annarra landsliða.
Leiðtogar landsliða heims í íshokkí. Sunna Björgvinsdóttir er þriðja frá hægri í aftari röðinni. Myndin er fengin af vef SA.
Ráðstefna með leiðtogum í íshokkí kvenna
Í umfjöllun á vef SA segir meðal annars um ráðstefnuna: „Ráðstefnan fór fram í borginni České Budějovice á sama tíma og Heimsmeistaramót kvenna fór þar fram og voru því allir fremstu leikmenn heims þar samankomnir. Á þessari viku tók Sunna þátt í umræðum, vinnustofum og tengslamyndun með öðrum leiðtogum úr kvennaíshokkíheiminum en fylgdist jafnframt með leikjunum á HM af besta stað í stúkunni og sat auðvitað úrslitaleikina þar sem boðið var uppá heimsins besta íshokkí ...“
Sunna fékk ekki aðeins að horfa á bestu hokkíkonur heims berjast um heimsmeistaratitilinn. Á heimleið frá Tékklandi sat hún við hliðina á nýkrýndum heimsmeistara og fyrirliða bandaríska liðsins, Hilary Knight, sem er „THE GOAT“, eins og það er orðað á vef SA, eða sú allra besta í íþróttinni.
Í veislu hjá Svíakonungi
Eftir leiðtogaráðstefnuna í Tékklandi lá leiðin aftur til Svíþjóðar, en þar beið hennar heimboð í sænsku konungshöllina í tengslum við opinbera heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til landsins. Sunna fékk boð um að mæta í veislu konungs sem fulltrúi íslensks íþróttalífs og tók móður sína með sér, listakonuna Karólínu Baldvinsdóttur, sem Akureyringar þekkja.
Sunna Björgvinsdóttir ásamt konungi Svía, Karli XVI Gustaf, í veislu sem boðið var til í tilefni af opinberri heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Svíþjóðar. Mynd af vef SA.
Hæfileikamótandi æfingabúðir heima
Sunna kom svo heim til Akureyrar eftir þessi ævintýri núna á vormánuðum til þess að leiðbeina næstu kynslóð ungra íshokkíkvenna hér heima, á 25 ára afmæli íshokkís kvenna á Íslandi. Núna um helgina hefur Sunna svo verið ásamt öðrum leikmönnum íslenska íshokkílandsliðsins að leiðbeina 75 ungum íshokkístelpum í hæfileikamótandi æfingabúðum. Sunna hefur miðlað af reynslu sinni um helgina, en að sumarfríi loknu heldur hún aftur út til Svíþjóðar til að spila íshokkí og „heldur áfram að ryðja brautina fyrir velgengni íslenskra íshokkíleikmanna,“ eins og segir í frétt SA.