Fara í efni
Íþróttir

Viðar Ernir bestur í sigri á Svartfellingum

Þórsarinn Viðar Ernir Reimarsson var valinn besti leikmaður Íslands í gær þegar landsliðið sigraði Svartfellinga 30:29 á Evrópumóti 18 ára og yngri í handbolta sem fram fer í Podgorica í Svartfjallalandi. Með sigrinum tryggði liðið sér þátttökurétt bæði á HM 19 ára og yngri á næsta ári og EM 20 ára og yngri eftir tvö ár.

Leikurinn var í milliriðli um 9. til 16. sætið á mótinu, sigur í riðlinum er þegar í höfn og ljóst að liðið leikur um 9. til 12. sæti. Ísland mætir Ítalíu næst, í hádeginu í dag.

Íslendingar voru undir nánast allan tímann í gær en skoruðu þrjú síðustu mörkin. Kjartan Þór Júlíusson gerði sigurmarkið og á síðustu andartökum leiksins skaut einn Svartfallinga í þverslá íslenska marksins úr aukakasti. Kjartan Þór og Viðar Ernir voru markahæstir Íslendinga, gerðu sex mörk hvor, og í leikslok tilkynnti dómnefnd á vefum EHF, Handknattleikssambands Evrópu, að Viðar Ernir hefði verið valinn bestur í íslenska liðinu.

Hér er hægt að horfa á leik Íslands og Ítalíu sem hefst klukkan 12.00 að íslenskum tíma. Nauðsynlegt er að skrá sig inn hjá EHF TV til að horfa en það er ókeypis.