Fara í efni
Fréttir

Verslunum Lindex á Íslandi verður lokað

Umboðsaðilar Lindex á Íslandi, hjónin Lóa D. Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon.

Öllum 10 verslunum Lindex á Íslandi verður lokað í síðasta lagi 28. febrúar næstkomandi. Ein þeirra er í verslunarmiðstöðinni Glerártogi á Akureyri.

Greint var frá þessu í morgun í sameiginlegri tilkynningu LDX19, rekstraraðila Lindex-verslananna á Íslandi, og móðurfélagsins Lindex AB í Svíþjóð. Hjónin Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon, eigendur LDX19, hafa rekið verslanir Lindex hér á landi í 15 ár skv. sérleyfi frá sænska fyrirtækinu.

Fyrsta Lindex-verslunin á Íslandi var opnuð 2011, þær eru nú 10 og starfsmenn um 100 að því er segir í tilkynningunni. Lóa Dagbjörg og Albert Þór reka fleiri fataverslanir hérlendis, m.a. Gina Tricot en ein slík er á Glerártorgi; var opnuð þar síðla árs 2023.

Haft er eftir Lóu Dagbjörtu bæði á Vísi og mbl að þau Albert hafi átt í viðræðum við sænska fyrirtækið um nýjan umboðssamning en samningar hafi ekki náðst.

„LDX19 hefur með farsælum hætti rekið Lindex á Íslandi í yfir 15 ár, á þeim tíma hefur vörumerkið byggt upp sterkan viðskiptavinahóp og náð frábærum árangri í rekstri fyrirtækisins. Allar Lindex-verslanir á Íslandi munu halda áfram hefðbundnum rekstri fram til um loka janúar 2026. Frekari upplýsingar um tímasetningu lokunar einstakra verslana verða kynntar síðar,“ segir í tilkynningunni.