Verslunarmannahelgi: Hvernig verður veðrið?

Einn af viðkvæmustu tímum ársins hvað varðar veðurspá er í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar. Veðrið hefur áhrif á aðsókn að hátíðum víða um land. Ef stytta ætti veðurspána fyrir næstu daga niður í tvö orð yrði niðurstaðan mögulega: „Komdu norður!“
Vindur úr suðri og væta í dag og á morgun
Samkvæmt veður spá fyrir daginn í dag sem Veðurstofa Íslands gaf út skömmu fyrir kl. 10 má búast við sunnan- og suðaustanátt, 5-13 metrum á sekúndu, hvassast vestantil. Þá verður dálítil væta, en rigning seinnipartinn, nema hvað lengst af verður þurrt á Norðausturlandi. Á morgun er gert ráð fyrir suðvestanátt, 5-10 metrum á sekúndu og skúrum, en þá mun létta til fyrir austan. Hiti verður 10-20 stig, hlýjast norðaustanlands.
Hlýjast norðaustanlands
Veðurspáin fyrir næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands:
- Fimmtudagur: Vestlæg átt, 3-8 m/sek. Skýjað með köflum og stöku skúrir, en bjartara fyrir austan. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
- Föstudagur: Sunnan 3-8 m/sek., skýjað og smá væta, en bjartviðri á Norðausturlandi. Vaxandi suðaustanátt vestanlands um kvöldið. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustantil.
- Laugardagur: Suðaustan 13-20 m/sek., hvassast suðvestantil, og rigning. Talsverð úrkoma um tíma sunnan- og suðaustanlands. Dregur úr vindi seinnipartinn. Hiti 11 til 17 stig.
- Sunnudagur: Útlit fyrir suðlæga átt og skúrir. Hiti breytist lítið.
- Mánudagur: Útlit fyrir suðlæga átt og skúrir. Hiti breytist lítið.
Á vefnum gottvedur.is, sem rekinn er af Veðurstofu Íslands, má sjá myndrænan samanburð á veðrinu í dag og næstu daga á „helstu stöðum,“ eins og það er orðað á vefnum.
Kaldara við Krossanesbrautina?
Veðurvefur Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, Blika.is, er bjartsýnn fyrir hönd Norðlendinga. Hér má sjá myndræna spá fyrir næstu daga við Krossanesbrautina, þar sem veðurathugunarstöð Veðurstofu Íslands stendur uppi á opnu holti, skammt frá sjávarbakkanum. Kappsamir Akureyringar hafa reyndar bent á að oft sé kalt við Krossanesbrautina og finnst að Akureyri vegið með því að mæla hitann þar.
Grænt og gult austur á Héraði í dag
Veðursældin virðist færast í austur frá því í gær, að minnsta kosti ef eingöngu er miðað við besta veðrið eins og það er sýnt á korti á vefnum bestavedrid.is. Grænt er á Héraði, besta veðrið á landinu kl. 10 þegar skjámyndin hér að neðan var tekin og næstbest í grennd.
Spá er bara spá og stundum virðist eins og textaspár og myndspár fari ekki alveg saman. Það er líka alltaf erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina.
Svona lítur landið út kl. 15 í dag og næstu daga samkvæmt myndrænni framsetningu á spákortum Veðurstofunnar.
Þriðjudagur 29. júlí
Miðvikudagur 30. júlí
Fimmtudagur 31. júlí
Föstudagur 1. ágúst
Laugardagur 2. ágúst
Sunnudagur 3. ágúst