Fara í efni
Menning

Verk Sigurðar Árna á 1.600 skiltum í París

Lítið málverk sem listamaðurinn Sigurður Árni Sigurðsson málaði árið 1992 prýðir nú 1.600 auglýsingaskilti um alla Parísarborg. Tilefnið er auglýsingaherferð á vegum borgarinnar til að hvetja fólk til að heimsækja og skoða listasöfn yfir hátíðarnar.

Akureyringurinn Sigurður Árni er einn þekktasti listamaður þjóðarinnar og bjó lengi og starfaði í Frakklandi, eftir að hafa stundað framhaldsnám í myndlist þar. Hann segir frá því á Facebook-síðu sinni að Listasafn Parísarborgar hafi keypt lítið málverk á fyrstu einkasýningu hans í borginni. Verkið hafi hann málað árið 1992, þegar hann var 29 ára gamall. Málverkið hafi af og til verið sýnt á nokkrum samsýningum og um tíma prýtt skrifstofu borgarstjórans.

Sigurður Árni segir frá því að listasafnið hafi haft samband við sig fyrir nokkrum vikum og óskað eftir því að fá að nota verkið í auglýsingaherferð á vegum borgarinnar. Það hafi verið auðsótt mál að gefa leyfi til þess. Í herferðinni er verið að hvetja fólk til að heimsækja og skoða listasöfn yfir hátíðarnar og mun þetta verk Sigurðar Árna birtast á um 1.600 auglýsingaskiltum um alla Parísarborg fram að áramótum. Alls voru fjögur verk valin til að nota í auglýsingaherferðinni en hin verkin eru eftir franska listamenn.

Hlutir geti öðlast líf aftur

Sigurður Árni lýsir verkinu svo í viðtali á vef RUV: „Grænn flötur með tveimur götum, þar sem sést í strigann aðeins, nema upp úr þessum götum koma kanínueyru.“ Hann segir ennfremur að þetta sé einfalt verk og beri ekki formlegt nafn en hafi alltaf verið kennt við „kanínuna“.

Sigurður Árni segir auðvitað gaman að sjá málverk sitt á auglýsingaskiltum einnar af stærri borgum Evrópu en að einnig sé skemmtilegt að sjá hvernig gamalt málverk getur öðlast nýtt líf. „En líka af því að þetta er gamalt verk hvernig einhvern veginn hvernig hlutir geta öðlast líf aftur, það er voða gaman að sjá það,“ segir Sigurður Árni í samtalinu við RUV.