Fara í efni
Íþróttir

Verðum að berjast sem einn maður í 60 mínútur!

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Liðin hafa mæst margoft og það er óhætt að segja að þau gjörþekki orðið hvort annað. Þetta er fimmti leikurinn okkar við Fram í vetur, verður mikill baráttuleikur og það er 100% öruggt að það sem mun skipta mestu máli verða einhver lítil atriði,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í handbolta við Akureyri.net fyrr í dag. Liðið mætir Fram í dag í undanúrslitum Coca-Cola bikarkeppni HSÍ.

  • Leikurinn verður á Ásvöllum, heimavelli Hauka í Hafnarfirði, þar sem öll bikarúrslitahelgin fer fram. Flautað verður til leiks klukkan 18.00 og beint útsending á RUV 2. Sigurvegarinn mætir Val eða ÍBV í úrslitum kl. 13.30 á laugardag, en þau lið mætast í kvöld.

„Við höfum tapað þrisvar fyrir Frömurum í vetur þannig að kominn er tími til að vinnum þær. Við ætlum að gera það í kvöld,“ sagði Andri Snær í dag.

Leikirnir til þessa eru:

  • Meistarakeppni HSÍ, KA/Þór - Fram 21:28 
  • Úrslitaleikur bikarkeppninnar: KA/Þór - Fram 27:20 (tilheyrði síðasta keppnistímabili en var frestað fram á haust vegna Covid)
  • Íslandsmótið: Fram - KA/Þór 27:25
  • Íslandsmótið: KA/Þór - Fram 20:21

„Það lið sem nær að spila betri vörn og fær betri markvörslu mun vinna þennan leik. Þannig er það alltaf þegar komið er í svona úrslitaleiki; ef menn ná upp vörn og markvörslu eykst sjálfstraustið og þá skapast ákveðin stemning sem getur komið liðum yfir erfiða kafla,“ sagði Andri.

„Það sem við þurfum fyrst og fremst að hugsa um er að spila mjög agaðan sóknarleik. Framliðið er algjör hraðlest sem nærist á hraðaupphlaupum og seinni bylgju; við þurfum því að vera með vel útfærðan sóknarleik og stýra hraðanum í leiknum. Við verðum að þora að taka færin sem gefast og stelpurnar verða að vera rosalega duglegar að hlaupa til baka í vörn. Þetta eru lykilatriði ef takast á að stoppa þeirra helstu vopn. Svo þurfum við auðvitað bara að mæta eins og alvöru liðsheild; við þurfum að kveikja á landsbyggðarstemningunni og berjast sem einn maður í 60 mínútur!“

Þótt margir leikmenn KA/Þórs séu tiltölulega ungir hafa þeir öðlast mikla reynslu síðustu misseri

„Já, við höfum verið í mörgum úrslitaleikjum undanfarið, liðið hefur því öðlast mjög dýrmæta reynslu sem á að hjálpa okkur. Það eru allir tilbúnir í slaginn, við vitum nákvæmlega fyrir hvað við stöndum og hvernig við ætlum að spila. Því er mjög mikilvægt að halda einbeitingu og gera þetta saman. Þá vinnum við Fram í dag,“ sagði Andri Snær.