Fara í efni
Mannlíf

Veisla framundan fyrir vélsleðamenn á Akureyri

Brautin mótuð á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Bæjarfjallið Súlur í fjarska. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Æfingabraut fyrir vélsleðamenn er að verða tilbúin á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Strákar í liði sem kallar sig Team 23 standa að gerð brautarinnar ásamt KKA, akstursíþróttafélagi torfæru- og vélsleðamanna á Akureyri, með dyggri aðstoð annarra. Þarna hyggjast þeir æfa sig af krafti fyrir Íslandsmótið í snocrossi sem er framundan.

„Það var mikið keppt í snocrossi í gamla daga, upp úr aldamótunum til 2007 en eftir hrunið lagðist þetta sport nánast af á Íslandi. Við höfum verið að reyna að hleypa lífi í það aftur á síðustu árum,“ sagði Bergsveinn Ingvar Friðbjörnsson, einn Team 23-liða, við Akureyri.net.

„Við gerðum svona braut hér á sama stað í fyrra, til að æfa okkur fyrir Íslandsmótið en svo var því reyndar aflýst vegna Covid.“

Íslandsmótið verður hins vegar haldið í ár, í þremur hlutum; fyrsta keppnin verður í Mývatnssveit 13. mars, sú næsta á Akureyri. 27. mars og síðustu keppnisdagar eru 17. og 18. apríl, þegar keppt verður á Sauðárkróki.

„Við fengum lánaðan troðara og starfsmann úr Hlíðarfjalli og svo hafa Finnur ehf og Nesbræður hjálpað okkur, bæði með því að lána okkur tæki til að safna saman snjó og flytja hann, sem er ómetanlegt og við erum þeim ótrúlega þakklátir. Það er algjör snilld hve menn eru tilbúnir að hjálpa okkur,“ segir Bergsveinn.

Nokkrum tonnum af snjó var safnað saman á svæði Bílaklúbbs Akureyri, ekið í hrúgur sunnan við spyrnubrautina, þar sem Tómas Orri Árnason settist undir stýri á snjótroðara og mótaði brautina samkvæmt fyrirmælum Ívars Más Halldórssonar.

Búast má við miklu fjöri í snocross brautinni um komandi helgi. Þá verður allt tilbúið, vélsleðamenn fá að þeysa um svæðið og gætu orðið eins og kýr að vori! Vert er að geta þess að 10 nýir, bandarískir sleðar hafa bæst við flota Akureyringa. Mörg ár eru síðan sleðaflotinn stækkaði jafn myndarlega á einu bretti.

Bergsveinn Ingvar Friðbjörnsson, standandi, Tómas Orri Árnason, undir stýri og Ívar Már Halldórsson, sem hannar brautina.

Bíll frá Finni ehf bætir snjó á svæðið þar sem brautin er lögð.