Fara í efni
Fréttir

Vel gengur að leggja háspennustrengina

Starfsmenn Finns ehf. að störfum norðan Kjarnaskógar. Ljósmynd: Hörður Geirsson.
Starfsmenn Finns ehf. að störfum norðan Kjarnaskógar. Ljósmynd: Hörður Geirsson.

Vel gengur að leggja háspennustrengi í gegnum bæjarland Akureyrar, sem starfsmenn Finns ehf. hófust handa við síðari hluta maímánaðar.

Strengirnir munu ná frá tengivirki á Rangárvöllum, við höfuðstöðvar Norðurorku, yfir í Vaðlaheiði þar sem þeir tengjast annars vegar Kröflulínu 1 og hins vegar nýrri Hólasandslínu.

Frá Rangárvöllum fara strengirnir yfir Glerá á brú sem er í byggingu, verða ofan hesthúsahverfisins Breiðholts, þaðan er haldið gegnum Naustaborgir og norðan Kjarnaskógar niður að Eyjarðarbraut vestri. Strengirnir verða sunnan flugbrautarinnar og farið er þaðan yfir í land Kaupangs.

Starfsmenn Finns ehf. hófust handa við Súluveg, eru nú staddir norðan Kjarnaskógar og vinna er einnig hafin í landi Kaupangs. Strengirnir eru lagðir um níu kílómetra leið, þrefaldur strengur í tveimur skurðum og því eru alls lagðir rúmlega 50 kílómetrar.

Um er að ræða 220 kílóvolta raflínu. Markmið framkvæmdarinnar er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi.

Strengurinn er umlukinn sérstökum sandi í jörðinni. Ljósmynd: Hörður Geirsson.

Ljósmynd: Hörður Geirsson

Að neðan: Verkið hófst við Súluveg seint í maí, þaðan sem haldið var í suðurátt, ofan hesthúsahverfisins Breiðholts. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.