Fara í efni
Fréttir

Veit ekki um hvað ÍBA ætti að tjá sig

Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), undrast ummæli fyrrverandi formanns KA um þögn ÍBA í umræðu um uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum.

„ÍBA fagnar að sjálfsögðu allri uppbyggingu íþróttamannavirkja á Akureyri,“ sagði Geir Kristinn þegar Akureyri.net leitaði viðbragða hans en segist í raun ekki átta sig á því hvað Ingvar Már Gíslason fv. formaður KA eigi við.

Sindri Kristjánsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, skrifaði á Facebook í dag að forsvarsmenn eins íþróttafélags á Akureyri hefðu í aðdraganda kosninganna í vor tekið mjög skýra afstöðu gegn uppbyggingu hjá öðrum íþróttafélögum og að í þeirri herferð hafi forsvarsmenn og málsmetandi félagsmenn íþróttafélagsins m.a. látið hafa eftir sér að atkvæði greitt tilteknu framboði væri atkvæði greitt gegn hagsmunum umrædds félags.

Þarna átti Sindri við Þór og Samfylkinguna.

Í færslu við skrif Sindra sagðist Ingvar Már taka undir hvert orð og bætti við: „Það sorglega er að þetta virðist virka og mikilli vinnu hent til hliðar. Það verður allavegna fróðlegt að fylgjast með þegar fjárfestingaáætlun næstu 5 ára verður lög fram samhliða fjárhagsáætlun. Merkilegt nokk að ÍBA sem er varðhundur íþróttafélaganna þegir þunnu hljóði, hvers vegna skyldi það vera?“

Engin aðkoma ÍBA

Geir Kristinn, sem er Þórsari, sagði í kvöld: „Ég veit ekki hvað það er sem ÍBA ætti að tjá sig um í þessu máli, sér í lagi í ljósi þess að ÍBA kom ekki að gerð skýrslunnar um uppbyggingu íþróttamannvirkja á sínum tíma, þrátt fyrir að okkur hafi reyndar ítrekað verið sagt að ÍBA fengi að koma að borðinu. Það var þverpólitískur hópur sem vann þá skýrslu, án allrar aðkomu ÍBA,“ sagði hann.

„Of margar íþróttagreinar í bænum búa enn við bága eða enga aðstöðu, en ég ítreka að við fögnum allri uppbyggingu,“ sagði formaður ÍBA.

Barðist Þór gegn Samfylkingunni?