Veðurútlit „nánast eins og í lygasögu“

„Veðurútlit næstu daga er nánast eins og í lygasögu. Í veðrinu höldum við okkur reyndar við staðreyndir, en nú veit maður ekki hverju skal trúa!“
Þetta skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á vef Bliku í dag.
„Nálægð háþrýstisvæðis næstu daga, sem að auki er staðsett á hárréttum stað, gerir það að verkum að á mest öllu landinu verðu bæði hlýtt og sólríkt. Eiginleg sumarhlýindi, fremur er vorhlýindi,“ segir Einar og bætir við: „Hæðir eins og þessi sjást hér alltaf annað veifið, en staldra oftast stutt við. Nú er hæðinni spáð á þessum hagfelldu slóðum næstu 10 daga og hugsanlega lengur.“
Á efstu myndinni má sjá spá fyrir næstu 10 daga; því rauðara svæði, því hlýrra, segir Einar og það skilar sér „sannarlega í hita nærri jörðu og frávikaspá ECMWF frá í gærkvöldi“ – á myndunum hér að neðan – „sýnir „blóðrauða“ flekki yfir landinu, fyrst 12. til 19. maí og aftur (en ívið veikari) vikunni þar eftir eða til 26. maí.“ Hitafrávikið er með ólíkindum, segir Einar, eins og það birtist eða allt að 10 stig.
„Tökum Akureyri sem dæmi. Þar er meðalhiti um miðjan maí um 6 til 7°C. Þegar við bætast 6 stig við erum við komin með 12 til 13 stiga meðalhita. Spáin fyrir Akureyri næstu 10 dagana t.d. á Bliku er einmitt á því róli!“