Veðurspá fyrir þá sem vilja gott veður

Fram undan er geggjað gott veður, átján gráður og sól, ef marka má veðurspána á glænýjum vef sem spáir eingöngu góðu veðri alla daga ársins.
Akureyri.net veit ekki hvaða húmoristar standa á bak við vefinn veðurspá.com en á síðunni segir að um sé að ræða íslenska veðurspásíðu sem elskar þig. Blaðamaður giskar á að Akureyringar standi á bak við vefinn, enda þeir þekktir fyrir að vera alltaf með besta veðrið hjá sér.
Alltaf með besta veðrið
Fyrir þá sem þrá betra veður þá er upplagt að kíkja á spána hjá veðurspá.com sem spáir alltaf betra veðri en allar aðrar veðurspár. Samkvæmt upplýsingum á síðunni þá er í raun alltaf gott veður, við verðum bara að skynja það.
Veðurspá dagsins á vedurspa.com hljómar t.d. svona:
Í dag er sól. Ef þér finnst kalt eða blautt þá er það líklega misskilningur í skynjunarkerfi þínu. Við mælum með því að anda djúpt, brosa og skynja rétt. Það er gott veður.
Hægt að panta gott veður
Á síðunni er einnig hægt að panta gott veður. Boðið er upp á mismunandi pakka á mismunandi verði. Til dæmis gildir Partýpakkinn í 12 klst. og tryggir gott veður fyrir ákveðna viðburði eins og sumarpartý. Veðrið í þessum pakka er alveg heiðskýrt með skýjabakka við sjóndeildarhringinn sem færast aldrei nær og vindurinn fer ekki yfir 5 m/s. Engin rigning í 12 klst og hiti á bilinu 17-22 stig.