Fara í efni
Fréttir

Varasöm rennibraut við Naustaskóla

Stórt gat er á rennibrautinni eins og sjá má á þessari mynd. Fullorðinn karlmaður sem staddur var á leiksvæðinu var blaðamanni innan handar við myndatökuna. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Rennibraut í fallegum leikkastala við Naustaskóla er hættuleg börnum sem stendur og rétt að vara foreldra við að hleypa börnum sínum í leiktækið. Stórt gat er á þykku plasti neðarlega í rennibrautinni – rörinu sem er á myndunum – og augljóst að barn sem renndi sér hratt gæti slasast ef það ræki handlegg út um gatið.

Maður sem staddur var á leiksvæðinu með afabörnin vakti athygli Akureyri.net á málinu og kvaðst hafa snúið frá í snatri og haldið sem leið lá inn í Kjarnaskóg. Annar maður, sem var með dóttur sína á svæðinu síðdegis í gær, hafði tekið eftir skemmdinni og velti fyrir sér hvern hann gæti látið vita í því skyni að vara við hættunni.

Handleggur fullorðins karlmanns og gatið á rennibrautinni. Ef barn á hraðri niðurleið ræki hönd eða handlegg út um gatið gæti farið illa.

Leikkastalinn glæsilegi sunnan við Naustaskóla. Það er rennibrautin vinstra megin á myndinni sem getur verið hættuleg eins og sakir standa.