Fara í efni
Íþróttir

Valþór úr axlarlið - grátlegt tap Þórs

Valþór Atli Guðrúnarson, prímus mótor í leik Þórsliðsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Valþór Atli Guðrúnarson, leikstjórnandi og leiðtogi Þórsliðsins í handbolta, fór úr axlarlið þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum gegn Val í Reykjavík í kvöld í Olís deildinni, og kom því ekki meira við sögu. Valþór hafði þrumað á markið andartaki áður en hann skall í gólfið og komið Þór í 20:19, með sjötta marki sínu í leiknum. Þórsarar komu skemmtilega á óvart gegn deildarmeisturunum og höfðu forystu allt þar til á 38. mínútu, þegar Valur komst í 19:18.

Valsmenn komust þrisvar yfir í leiknum; 19:18, 27:26 og svo 28:27 - og gerðu þrjú síðustu mörkin, því lokatölur urðu 30:27.

Það á ekki af Valþóri Atla að ganga. Hann hefur áður farið úr axlarlið báðum megin og farið í aðgerðir í kjölfarið. Fagfólki tókst að koma honum í liðinn strax inni á vellinum, áður en hann gekk út af. Valþór fer í myndatöku á morgun og eftir það verður hugsanlega ljóst hvenær hann getur hafið æfingar á ný, eða hvort hann þarf jafnvel í aðgerð.

Nánar um leikinn í fyrramálið.