Fara í efni
Íþróttir

Úrslitarimman í íshokkí kvenna hefst á morgun

Lið SA vann deildarmeistaratitilinn í Hertz-deildinni með yfirburðum í vetur og fékk bikarinn afhentan á dögunum. Nú er komið að því að keppa um aðalbikarinn. Mynd: Þórir Tryggva.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar, deildarmeistarar Hertz-deildarinnar í íshokkí, hefur á morgun lokakaflann í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. SA tekur þá á móti liði Fjölnis í Skautahöllinni á Akureyri í fyrsta leik úrslitarimmunnar þetta árið. SA hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn 17 ár í röð og alltaf nema einu sinni frá því að fyrst var keppt um hann. Akureyringar hafa oftast unnið titilinn sem SA Ásynjur, en SA Ynjur (yngra liðið) vann hann 2017. Björninn hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari, 2006, en íshokkídeild Fjölnis varð til með sameiningu við Björninn.

SA vann deildina með yfirburðum í vetur, náði sér í 42 stig í 16 leikjum. Liðið vann 13 leiki og tapaði einum, auk þess að vinna einn og tapa einum í framlengingu. Fjölniskonur komu næstar með 24 stig. SA á því oddaleiksréttinn og hefst rimman á Akureyri. Annar leikur verður í Egilshöllinni á þriðjudag og sá þriðji á Akureyri fimmtudaginn 29. febrúar. Vissulega væri skemmtilegt ef SA næði að vinna 3-0 og tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á hlaupársdeginum. Vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Ef þörf verður á mætast liðin í fjórða leik í Egilshöll 2. mars og mögulega þá í oddaleik á Akureyri þriðjudaginn 5. mars. 

Leikur liðanna hefst kl. 16:45.