Fara í efni
Mannlíf

Úr ferðamennsku í sölu á notuðum vörum

Sólveig og Guillaume í húsnæðinu í Kaupangi sem er óðum að taka á sig mynd. Parið flutti til Akureyrar í fyrra til að vera nálægt góðum skíðasvæðum.

Ungt par lætur reynsluleysi af verslunarrekstri ekki stöðva sig og undirbýr nú opnun á Lottunni, nýrri nytjaverslun á Akureyri. Það sem drífur þau áfram er vilji til að leggja sitt af mörkum við að nýta betur það sem jörðin gefur.

Lottan er til húsa í 150 fm húsnæði í Kaupangi og opnar formlega þann 24. nóvember. Þar getur fólk leigt sölubása í 7-28 daga í senn undir notaðan fatnað og fylgihluti og sér verslunin um að selja vörurnar gegn þóknun. Það eru þau Sólveig Sveinbjörnsdóttir og Guillaume Martin Kollibay sem standa á bak við Lottuna en Sólveig segir að parið hafi lengi dreymt um að fara út í rekstur á borð við þennan og stokkið til þegar tækifærið bauðst í haust.

Parið á skíðum í Ítalíu en aðalástæðan fyrir því að þau fluttu til Akureyrar var að geta verið nálægt góðum skíðasvæðum.

Notað er framtíðin

Einhverjum kann að finnast það vera að bera í bakkafullan lækinn að opna enn eina verslunina á Akureyri með notaðan fatnað þar sem nú þegar eru nokkrar slíkar fyrir í bænum; Rauði krossins, Hertex og Norðurhjálp. Þá hefur verslunin Afturnýtt í Sunnuhlíð boðið upp á sölubásaleigu í mörg ár. „Nei mér finnst einmitt vanta meira framboð af nytjaverslunum á Akureyri því þetta er framtíðin. Við trúum því að nytjaverslanir eigi bara eftir að styrkjast og að fólk verði enn umhverfisvænna og duglegra við að endurnýta og kaupa notað. Á höfuðborgarsvæðinu eru nú þegar fjölmargar svona verslanir sem njóta mikilla vinsælda og eins hafa svipaðar verslanir einnig verið að opna í smærri bæjarfélögum. Okkar markmið með Lottunni er að bjóða upp á þægilegt sölukerfi sem er auðvelt í notkun þannig að allir geti selt hjá okkur sama hvort það er unglingurinn á heimilinu eða amman,“ segir Sólveig og bætir við að hún sjái líka fyrir sér að Lottan verði með ýmsa viðburði og námskeið í tengslum við endurnýtingu þegar fram í sækir.

Guillaume og Sólveig sérhæfðu sig í ferðum fyrir ljósmyndara í íshella á Höfn. Hér eru þau ásamt hundinum sínum Gaiu.

Úr skíðum í verslunarrekstur

Verslunarrekstur er parinu nokkuð framandi og eiginlega algjör u-beygja frá því sem þau hafa hingað til verið að fást við. Undanfarin ár hafa þau starfað við ferðamennsku en þar sem þau eiga von á sínu fyrsta barni í desember langaði þau til að breyta til og starfa við eitthvað sem krefðist ekki jafn mikilla ferðalaga og fyrri störf í kringum ferðamenn. „Ég er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði og Guillaume er franskur,“ segir Sólveig aðspurð út í tengsl parsins við Akureyri og hvernig það kom til að þau fluttu þangað í fyrrasumar. „Við erum bæði mikið skíðafólk og kynntust í gegnum skíðamennskuna í frönsku Ölpunum árið 2015. Svo fluttum við til Íslands og fórum að vinna við ferðaþjónustu á Höfn en ég hef undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri yfir fjallamennskunámi í Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu. Við ætluðum okkur aldrei að búa á Höfn til langframa. Guillaume hefur undanfarið unnið við þyrluskíðamennsku á Tröllaskaga og við keyptum okkur sumarbústað í Ólafsfirði í Covid til að eiga afdrep á því svæði. Við segjum stundum að við höfum flutt til Akureyrar til þess að vera nær sumarbústaðnum, en tilfellið er að Akureyri hentar mjög vel fyrir þann lífstíl sem við kjósum, hér er í stutt í skíðasvæði,“ segir Sólveig.

Guillaume og Sólveig hafa komið víða við þó ung séu að árum. Þau bjuggu í húsbíll um tíma í Evrópu og eru hér fyrir framan Matterhorn.

Tækifæri fyrir aukapening

Sólveig segist lengi hafa haft dálæti á nytjamörkuðum og nýtt sér þá mikið í gegnum árin. Segir hún gleðilegt að sjá þá vakningu sem orðið hefur í þessum málum í þá átt að það er ekki lengur „skrítið“ að kaupa notað. „Auk þess að geta keypt notaðan fatnað í Lottunni á góðu verði þá gefst fólki einnig tækifæri á að ná sér í aukapening með því að losa sig við flíkur sem það er hætt að nota, þannig vinna allir; seljendur, kaupendur og umhverfið,“ segir Sólveig. Hún bætir við að margir eigi erfitt með gefa frá sér flíkur en finnist auðveldara að losa sig við fatnað með því að fá eitthvað fyrir hann. „Fólk tímir oft ekki að gefa góðar flíkur en vill samt ekki að þær safnist upp heima. Með því að selja þær aftur þá fær varan meira notagildi til lengri tíma sem er auðvitað mjög gott fyrir umhverfið.“

Fjölskylda Sólveigar hefur komið allstaðar að til að hjálpa til við undirbúning verslunarinnar sem opnar þann 24.nóvember. Parið segist þeim óendanlega þakklát og vona að Akureyringar taki nýju versluninni fagnandi.

Kaupangur miðsvæðis

Aðspurð út í staðsetninguna í Kaupangi þá segist hún vera mjög ánægð með hana. Kaupangur sé mjög miðsvæðis í bænum og þar eru fyrir ýmsar verslanir og þjónusta sem fólk sækir sérstaklega í. „Þá erum við nálægt Rauða krossinum og Hertex þannig að ef fólk er á annað borð að skoða svona búðir þá ættum við að vera í hringnum. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð og það hefur bókast hratt í básana fyrir fyrstu opnunarvikuna. Við erum með 65 bása í versluninni í heildina, verslunin verður tvískipt og verður um helmingur básanna fyrir barnafatnað en hinn hlutinn fyrir fullorðinsföt. Við erum á fullu að undirbúa opnunina og erum orðin mjög spennt og vonum bara að Akureyringar taki vel á móti okkur,“ segir Sólveig og bendir áhugasömum á heimasíðu verslunarinnar lottan.is en þar er tekið við básapöntunum og hægt að fá allar nánari upplýsingar.