Fara í efni
Fréttir

UMFÍ verðlaunar heilbrigðisteymi SA

Hokkípabbinn Jóhann Þór Jónsson hefur starfað sem sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður í rúm 30 ár og átti frumkvæðið að því að koma á fót heilbrigðisteymi Skautafélags Akureyrar. Mynd af vef SA
Heilbrigðisteymi Skautafélags Akureyrar hlaut hvatningarverðlaun Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) ásamt þremur öðrum, á Sambandsþingi UMFÍ sem haldið var um helgina í Stykkishólmi. „Framlag heilbrigðisteymis Skautafélags Akureyrar til öryggis og velferðar iðkenda og gesta í Skautahöllinni á Akureyri er ómetanlegt,“ segir í tilkynningu UMFÍ.
 
Heilbrigðisteymið var stofnað haustið 2023 að frumkvæði Jóhanns Þórs Jónssonar, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmanns. „Það hefur frá fyrsta degi starfað á sjálfboðaliðagrunni. Í teyminu eru í dag um 14 einstaklingar, flestir foreldrar iðkenda, sem allir starfa í heilbrigðisgeiranum – læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn og sjúkraliðar,“ segir í tilkynningunni.
 
 
Teymið stóð vaktina á sínum fyrsta vetri á 53 viðburðum og náði nánast alltaf að manna vaktir. Teymið er á öllum heimaleikjum skautafélagsins – bæði hjá meistaraflokkum og yngri flokkum – auk þess að sinna helgarmótum.
 
Of langt mál er að telja upp alla vinnu og kosti heilbrigðisteymisins, sem hefur brugðist við þegar óhöpp og veikindi hafa komið upp í röðum leikmanna og áhorfenda auk þess að halda skrá yfir öll óhöpp sem verða í leikjum og á æfingum sem nýtist félaginu við að greina umfang og eðli meiðsla.
 
  • Frétt akureyri.net um heilbrigðisteymi SA í desember 2023:

Heilbrigðisteymi á öllum íshokkíleikjum

Jóna Jónsdóttir, formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) tók við verðlaunum Skautafélags Akureyrar á Sambandsþingi UMFÍ í Stykkishólmi um helgina. Mynd: UMFÍ
Auk heilbrigðisteymis Skautafélags Akureyrar fengu hvatningarverðlaun UMFÍ, Ungmennafélagið Vísir í Suðursveit, Ungmennafélag Reykdæla og Íþróttafélagið Undri í Dalabyggð.
 
  • Nánar um verðlaunin á vef UMFÍ: