Fara í efni
Fréttir

Umfangsmikil viðgerð á flugturninum

Verið er að skipta um ytra byrðið, sperrur og annað sem hafði fúnað á flugturninum á Akureyrarflugvelli.

Umfangsmiklar viðgerðir standa nú yfir á flugturninum á Akureyrarflugvelli. Engin hætta er á að framkvæmdirnar trufli flug um völlinn.

„Framkvæmdirnar áttu upphaflega að taka þrjá mánuði en munu lengjast þar sem það kom í ljós að það var meiri viðgerðarþörf en talið var í byrjun,“ segir Hermann Jóhannesson, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli. Segir hann að þakið á turninum hafi verið farið að leka og verið sé að skipta um ytra byrðið, sperrur og annað sem hafði fúnað. Segir Hermann að áður en framkvæmdir hófust hafi áhættumat verið framkvæmt með tilliti til flugumferðar en flugstarfsemi vallarins á ekki að verða fyrir truflun þó að þessar framkvæmdir séu í gangi í turninum.

Ný flugfélög skoða möguleika

Fleira fréttnæmt er í gangi á Akureyrarflugvelli. Eins og Akureyri.net greindi nýlega frá eru strætósamgöngur að hefjast að flugvellinum á nýju ári sem eru mikil gleðitíðindi og styrkir stöðu flugvallarins sem samgöngumiðju á Norðurlandi.

Þá er verkefnið  Nature Direct, sem Isavia Innanlandsflugvellir, Íslandsstofa, Markaðsstofa Norðurlands og Austurbrú standa að, í fullum gangi en það gengur út á það að kynna nýjar gáttir til landsins um Akureyri og Egilsstaðaflugvöll.  Segir Hermann að það séu nokkur félög að skoða möguleika á flugi til Akureyrar. „En þetta tekur tíma í undirbúningi og ákvarðanataka félaganna er tímafrek. Það er ekki tímabært að greina frekar frá á þessum tímapunkti,“ segir Hermann sem vonar þó að eitthvað af þessum viðræðum gangi upp.

Annars er að jafnaði erilsamt á flugvellinum því auk hefðbundins innanlandsflugs um Akureyrarvöll þá séu þar að meðaltali 3,5 sjúkraflug daglega. Þá segir Hann að millilandaflug easyJet hafi gengið vel það sem af er vetri, bókanir góðar og farþegar séu ánægðir, bæði útlendingar og heimamenn. „EasyJet-farþegarnir eru rosalega ánægðir með þjónustuna og viðmótið sem þeir fá hér hjá okkur og margir eru að sækja hingað aftur. Það er ánægjulegt,” segir Hermann að lokum.

Hermann tók við starfi flugvallarstjóra á Akureyri og umdæmisstjóra Isavia í júlí af Hjördísi Þórhallsdóttur sem hafði sinnt starfinu í 13 ár, en hann flutti gagngert frá Danmörku með konu og tvö börn til þess að taka við starfinu. Hann er menntaður vélaverkfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með meistarapróf í iðnaðarverkfræði frá Chalmers í Gautaborg en síðast starfaði hann hjá Lego í Danmörku. Hermann segir reynsluna af nýja starfinu hafa verið jákvæða. Starfið sé mjög fjölbreytt og mikið um að vera í umdæminu.