Fara í efni
Íþróttir

Um 400 krakkar skemmtu sér í Skólablaki

Hluti barnanna sem tók þátt í Skólablaki í Boganum.
Hluti barnanna sem tók þátt í Skólablaki í Boganum.

Tæplega 400 krakkar úr 12 skólum á Norðurlandi tóku þátt í Skólablaki, sem haldið í Boganum á Akureyri á miðvikudag í síðustu viku. Öllum krökkum í 4. til 6. bekk er boðin þátttaka, en það er undir hverjum skóla komið hvort þeir taki þátt. Viðburður sem þessi hefur farið fram 11 sinnum hér og þar um landið.

„Þeir sem hafa tekið þátt hafa verið mjög ánægðir með þetta framtak og allir krakkarnir skemmt sér konunglega. Markmiðið er einmitt að hafa gaman og skemmta sér, en einnig að auka sýnileika blakíþróttarinnar og auka þátttöku krakka í blaki,“ segir Elsa Björnsdóttir hjá Blaksambandi Íslands (BLÍ).

Reglurnar eru einfaldaðar í Skólablaki; tveir til þrír eru saman í liði og kasta má og grípa boltann, til að auðvelda spilið í leiknum.

Framtakið er samstarfsverkefni BLÍ, Blaksambands Evrópu, Ungmennafélags Íslands, Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og blakfélaganna í landinu – í þessu tilfelli blakdeilda KA og Völsungs.