Fara í efni
Fréttir

Tvöfalt fleiri mega koma í dag en í gær

Góðviðrisdagur í Hlíðarfjalli. Ágæt spá er fyrir helgina á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Góðviðrisdagur í Hlíðarfjalli. Ágæt spá er fyrir helgina á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Í dag tekur gildi reglugerð sem heimilar tvöfalt fleira fólk á hverj­um tíma á skíðasvæðum lands­ins en síðustu vikur; 50% af reiknaðri mót­töku­getu hvers svæðis, en miðað hefur verið við 25% undanfarið. Enn frem­ur verður veit­inga­sala opnuð en skíðafólk er engu að síður hvatt til þess að taka með sér nesti.

Að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, mega nú vera 1500 til 1700 manns í fjallinu í einu. Hann kveðst að sjálfsögðu himinlifandi með breytinguna en minnir þó á að sömu reglur og áður gildi um grímunotkun og nándarmörk. Þar af leiðandi megi til að mynda ekki fleiri fara í lyftu nú en verið hefur. Uppselt var á skíðasvæðið frá klukkan 14 í gær þar til á þriðjudaginn, en fleiri miðar fara í sölu í dag.

Smellið hér til að kaupa miða.

Opið verður í Hlíðarfjalli frá klukkan 10 til 19 alla daga til mánaðamóta og skíðamönnum skipt í tvö holl; það fyrra getur skíðað frá klukkan 10 til 14 og hið síðara frá 15 til 19. Lyftum verður lokað á milli 14 og 15.

Eftirfarandi upplýsingar eru á heimasíðu Hlíðarfjalls:

 • Í boði er að koma á frísvæðið okkar. Allir þurfa að skrá sig á svæðið með því að senda tölvupóst á hlidarfjall@hlidarfjall.is þar sem kemur fram nafn þeirra sem ætla að koma á svæðið, aldur allra og símanúmer ábyrgðaraðila. Ekki er skráning tekin gild fyrr en svar hefur borist frá starfsmönnum Hlíðarfjalls. Hafa skal tölvupóstinn meðferðis (útprentaðan eða í síma) svo hægt sé að sýna fram á að leyfi hafi verið gefið fyrir komu á svæðið.
 • Í boði verður að nýta dagspassa og Norðurlandskort til að fá miða í lúgu.
 • Öryrkjar/Hetjurnar - Þar sem ekki er hægt að kaupa þessa miða á miðasölusíðu Hlíðarfjalls verður í boði að kaupa miða í lúgu gegn framvísun örorkukorts/umönnunarkorts. Ekki er þó hægt að hleypa ótakmörkuðu magni af fólki á svæðið og því er fólk beðið að hringja í síma 462-2280 áður en lagt er af stað í fjallið, til að athuga stöðuna.
 • Ekki er hægt að kaupa vetrarkort á tímabilinu 17.-28. febrúar nema fyrir börn fædd 2005 og seinna.
 • Öll miðasala fer fram á heimasíðunni okkar.
 • Mikilvægt er að vera með vasakortin klár áður en bóka á í fjallið. Ekki er hægt að setja bæði fyrri- og seinnipart sama daginn á eitt vasakort.

Eftirfararandi atriði má finna í reglugerðinni sem tekur gildi í dag:

 • Lyftur og skíðagöngusvæði eru opin og tilmælum sóttvarnalæknis um sóttvarnir er fylgt.
 • Leyfilegur hámarksfjöldi á hverjum tíma er 50% af reiknaðri móttökugetu hvers svæðis. Aukið eftirlit er með fjölda á hverju svæði og ef útlit er fyrir að fjöldi sé kominn að hámarki þá verða upplýsingar umsvifalaust birtar á upplýsingamiðlum skíðasvæðanna og aðgangur að svæðinu lokað tímabundið.
 • Hvert svæði birtir á vef sínum upplýsingar um hámarksmóttöku og reiknað hlutfall gesta sem er leyfilegur á hverjum tíma. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með.
 • Nándarmörk eru 2 metrar. Tryggt að þeir sem eru einir á ferð komist einir í stól og gert kleift að halda nándarmörk á milli ótengdra aðila, tengdir aðilar geta ferðast saman.
 • Upplýsingamiðlun til skíðamanna er meiri en í venjulegu árferði og skíðamenn eru beðnir að afla sér upplýsinga um aðgengi að skíðasvæði áður en haldið er af stað. Ekki er víst að allir komist á skíði þegar þeim hentar best.
 • Salerni eru opin. Grímuskylda er á salernum.
 • Veitingasala er opin samkvæmt núgildandi reglugerð. Skíðamenn eru hvattir til að hafa með sér nesti og neyta þess í sínum farartækjum eða úti í snjónum.
 • Skíðaæfingar og skíðanámskeið fylgja reglum sem settar hafa verið um íþróttir.
 • Tveggja metra merkingar um nándarmörk eru staðsettar við byrjun raðar í hverri skíðalyftu.
 • Skíðaskálar eru opnir. 20 manns mega að hámarki vera saman í rými á hverjum tíma.