Fara í efni
Íþróttir

Tvíburarnir hetjur á heimavellinum

Sigurmarkið! Fögnuður KA-manna var sannarlega innilegur eftir að Nökkvi Þeyr Þórisson gerði þriðja markið þegar lítið var eftir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tvíburarnir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir voru hetjur KA-manna á Dalvík í kvöld þegar þeir unnu Keflvíkinga 3:2 í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Tvíburarnir gerðu öll mörkin, Þorri það fyrsta á lokamínútum fyrri hálfleiks og Nökkvi hin tvö þegar skammt var eftir af leiknum. Þeir eru frá Dalvík og því sannarlega óhætt að segja að þeir hafi fagnað sigri á heimavelli!

KA-menn spila heimaleikina á Dalvík framan af sumri þangað til heimavöllur þeirra verður tilbúinn eins og í fyrrasumar. KA hefur þar með unnið þrjá fyrstu leikina og er í efsta sæti ásamt Val og Breiðabliki með níu stig.

Leikurinn var í rólegri kantinum framan af, KA-menn sköpuðu þó nokkrum sinnum hættu við mark gestanna og Steinþór Stubbur varði einu sinni vel hinum megin, en ekkert gekk fyrr en alveg í lok hálfleiksins. Þorri Mar skoraði á 42. mín. en Ingimundar Aron Guðnason jafnvaði á lokamínútunni.

  • Þetta var fyrsta mark Þorra Mar í efstu deild Íslandsmótsins. Boltinn hafði reyndar viðkomu í varnarmanni, einhverjir veltu vöngum yfir því í kvöld hvort það yrði skráð sjálfsmark en Þorri á markið að minnsta kosti þangað til annað kemur í ljós!

Skömmu eftir markið jafnaði Keflavík. Joey Gibbs renndi út fyrir vítateig á Ingimund Aron sem sendi boltann laglega efst í hægra hornið.

  • Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, þurfti að fara af velli strax á 18. mín. Hann var tæklaður hraustlega nokkrum mínútum áður, sveif út fyrir völlinn og lenti á malbikuðu svæði. Hann var slæmur í bakinu eftir leik.
  • Hallgrímur Mar Steingrímsson leysti Ásgeir af hólmi. Hallgrímur gat ekki æft mikið í vetur vegna meiðsla, er ekki kominn í mikla leikæfingu og var skipt aftur af velli á 78. mín.

KA-menn heimtuðu víti eftir hálftíma þegar Hallgrímur Mar féll í vítateig Keflvíkinga en Pétur dómari Guðmundsson var ósammála þeim kröfum. Rúnar Þór Sigurgeirsson virtist ná að pota í boltann áður en þeir Hallgrímur lentu saman.

KA var mikið með boltann í seinni hálfleik en gekk erfiðalega að komast í gegnum vel skipulagða vörn Keflvíkinga. Gestirnir voru kraftmiklir og duglegir og náðu hættulegum sóknum og svo fór að þeir komust yfir þegar um 20 mínútur voru eftir; Patrik Johannessen skoraði eftir sendingu Edon Osmani.

Áfram héldu KA-menn að reyna, voru mikið með boltann en þegar innan við 10 mínútur voru eftir var heppnin með þeim þegar gestirnir fengu mjög gott færi en Adam Ægi Pálssyni brást bogalistin.

Þremur mínútum síðar fékk KA svo víti. Fyrirliði Keflavíkur, Magnús Þór Magnússon, sparkaði í Nökkva Þey innan vítateigs og þá var Pétur dómari ekki í vafa. Nökkvi tók vítið sjálfur, Sindri markvörður var nálægt því að verja en inn fór boltinn.

Þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna, en þó um þrjár eftir, skoraði Nökkvi aftur og gerði þá mjög vel. Boltinn var sendur inn á vítateig, Rodri skallaði hann til Nökkva sem var snöggur að hugsa um þrumaði boltanum í hornið fjær.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Tvíburarnir brostu breitt að leikslokum. Nökkvi Þeyr, til vinstri, og Þorri Mar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.