Fara í efni
Menning

Tonnatak gefur út smáskífuna Jaðarber

Kristján Pétur Sigurðsson og Haukur Pálmason. Ljósmynd: Daníel Starrason

Smáskífa hljómsveitarinnar Tonnataks, Jaðarber, kemur út í dag. Lagið er það fyrsta sem fær að hljóma af væntanlegri hljómplötu sveitarinnar, en hún hefur fengið vinnuheitið Hugljúfur hávaði.

Hljómsveitin Tonnatak hefur verið starfandi síðan í ársbyrjun 2015 þegar hún var stofnuð af Kristjáni Pétri Sigurðssyni og Þorsteini Gíslasyni. Hljómsveitin hefur tekið upp fjölmörg lög í samvinnu við tónlistar- og listafólk úr öðrum geirum og gefið út á netinu.

„Árið 2020 var ákveðið að stækka hljómsveitina með föstum meðlimum og með innkomu Hauks Pálmasonar og Daníels Starrasonar í hljómsveitina voru línurnar lagðar að fyrstu hljómplötu hennar. Eftir vel heppnað æfingaferli hófust upptökur í ágúst 2021,“ segir í tilkynningu sem barst í morgun.

„Tónlistin er pönk- og rokktónlist sem á rætur sína víða, þar má finna áhrif frá blús- og reggí, rokkabillí, klassísku rokki og frá hippatímabilinu. Lögin eru flest stutt með áherslu á góða íslenska texta og dágóðum skammti af húmor. Margir textarnir fela í sér nýyrðasmíði líkt og titlarnir Jaðarber og Ellihrellir bera vott um. Lögin eru nær öll samin sérstaklega fyrir hljómsveitina á því tímabili sem þessir fjórir meðlimir hafa starfað saman. Í laginu Jaðarberi nutum við krafta Eyþórs Inga Jónssonar, organista, sem spilaði fyrir okkur á Farfisa orgel.“

Hljómplatan verður gefin út í 250 eintökum á vínylplötu, stefnan er sett á að geta selt plötuna á góðu verði í anda pönksins og fagna svo útgáfu hennar í ársbyrjun 2022 með útgáfutónleikum.