Fara í efni
Fréttir

Tjaldsvæðin nánast full í fimm vikur

Tjaldsvæðið að Hömrum eitt góðviðriskvöldið í vikunni. Ljósmyndir: Axel Þórhallsson.
Tjaldsvæðið að Hömrum eitt góðviðriskvöldið í vikunni. Ljósmyndir: Axel Þórhallsson.

Mikil aðsókn hefur verið á tjaldsvæðin á Akureyri í sumar og nánast fullt hvern einasta dag síðan um miðjan júní, enda fádæma veðurblíða verið á Norðurlandi þann tíma.

„Það hefur gengið mjög vel í sumar. Síðustu fimm vikur hafa verið hér nánast eins margir og við höfum getað tekið á móti,“ sagði Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri Útilífs- og umhverfismiðstöðvar skátanna á Hömrum og tjaldsvæðisins við Þórunnarstræti, við Akureyri.net í morgun.

„Það er aðeins rólegra núna en verið hefur, kannski vegna þess að fyrri hluta vikunnar var ekki sérlega góð spá fyrir helgina,“ segir Tryggvi, en Akureyringar og gestir þeirra njóta engu að síður enn eins sólarmorgunsins.

Um 1.000 manns hafa verið á Hömrum á hverjum degi í sumar og mest komast um 300 á svæðið við Þórunnarstræti. „Þegar mest var voru um 2.000 manns á Hömrum en eftir mikla hjólhýsavæðingu er staðan allt önnur en áður. Við búum við alveg nýjan veruleika.“

Að meðaltali eru einungis 2,1 í hverju hjólhýsi, að sögn Tryggva. „Það má segja að þetta hafi gjörbreyst á tveimur árum, í ár hafa til dæmis verið skráð á milli fjögur og fimm hundruð ný hjólhýsi á landinu og megnið af okkar gestum í gegnum árin hafa verið Íslendingar – um 90%. Árin 2018 og 2019 voru útlendingar reyndar allt að helmingur gesta en það hefur breyst aftur.“

Tryggvi segir tjaldsvæðin í raun ekki hönnuð fyrir svona stór hjólhýsi, menn þurfi til dæmis mikið pláss til að snúa við, og því þyrfti að fara í töluvert miklar framkvæmdir til að aðstaðan verði viðunandi.

Fjöldatakmarkanir taka gildi á ný á miðnætti, sem gerir Tryggva og hans starfsfólki býsna erfitt fyrir. „Þetta var martröð í fyrra, þá þurftum við að losa um 600 manns út af Hömrum á nokkrum klukkutímum. Ég var að vonast til að reglurnar tækju gildi á mánudeginn því við getum ekki rekið fólk í burtu sem búið er að borga gistingu,“ segir Tryggvi en reiknar þó með að allt verði orðið í himnalagi fljótlega.