Fara í efni
Menning

„Tilvistarkreppa og sjálfsblekking“

Sigurjón Kjartansson semur tónlistina í leikverkið Elskan, er ég heima, sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir 11. október næstkomandi. Mynd: RH

„Ég hélt fyrst, að Ilmur vildi að ég myndi semja einhverja fifties tónlist, sem mér fannst í meira lagi undarlegt,“ segir Sigurjón Kjartansson, tónlistarmaður. Þegar vinkona hans, Ilmur Kristjánsdóttir hringdi og óskaði eftir því að hann myndi semja tónlistina í leikstjórnarverkefninu hennar á Akureyri, leikritinu Elskan, er ég heima?, kom það honum töluvert á óvart að hún vildi einmitt að hann myndi koma með svolítinn HAM tón í verkið.

Um þessar mundir er verið að flétta saman þá fjölmögu þræði sem til þarf, til þess að skapa leiksýninguna Elskan, er ég heima? hjá Leikfélagi Akureyrar. Blaðamaður Akureyri.net fékk að trufla Sigurjón við upptökur í hljóðverinu í Hofi og athuga hvernig það kom nú til, að hann væri tónskáld verksins - og hvernig það leggðist í hann.

Það sem ég kem með inn í verkið með tónlistinni, er einhver jarðtenging við þessa nánast óframkvæmanlegu fantasíu aðalsöguhetjunnar

Sigurjón hefur mest samið tónlist fyrir hljómsveitina sína HAM, en þetta verkefni hjá LA er frumraun hans sem tónskáld fyrir leikverk. Ilmur Kristjánsdóttir leikstýrir, en hún og Sigurjón hafa unnið mikið saman í hinu og þessu undanfarin 20 ár. „Það er einhver svona sjötta áratugs fílingur yfir þessu verki, og mér fannst undarlegt að henni skyldi detta í hug að biðja mig að semja tónlistina. Það kom svo á daginn að verkið gerist eftir allt saman í nútímanum, og ég hef komist að því að það er ástæða fyrir því að hún vildi fá mig til þess að semja,“ segir Sigurjón.

Fortíðarþráin og gömlu gildin

Verkið fjallar um Gunnu, sem ákveður að allt hafi verið betra í gamla daga, og tekur þá hugmynd alla leið ásamt manni sínum. Þau gera heimilið sitt upp í réttum tíðaranda, fá sér réttu fötin og Gunna gerist heimavinnandi húsmóðir og týpísk eiginkona sjötta áratugarins - klár með inniskóna þegar hennar heittelskaði kemur heim úr vinnunni á daginn. Það setur strik í reikninginn, að móðir hennar býr á heimilinu líka, en hún er síður en svo hrifin af þessu uppátæki, verandi mikill jafnréttissinni og baráttukona á árum áður. 

 

Hólmfríður Hafliðadóttir og Ólafur Ásgeirsson leika hjónin Gunnu og Jonna, sem gefast upp á nútímanum og reyna að leita skjóls í gömlum gildum. Edda Björgvinsdóttir leikur móður Gunnu, sem er lítið hrifin af uppátækinu. Myndir: Leikfélag Akureyrar

Fyndið og sorglegt, allt í senn

„Þetta er fyndið verk, þetta er gamanleikur - en það er samt harmur í því líka. Það er náttúrulega einver fortíðardýrkun að grassera í samfélaginu í dag, sem er umhugsunarverð og þetta verk kemur inn á það. Í kjarna verksins er ákveðin tilvistarkreppa og sjálfsblekking,“ segir Sigurjón. „Og það sem ég kem með inn í verkið með tónlistinni, er einhver jarðtenging við þessa nánast óframkvæmanlegu fantasíu aðalsöguhetjunnar. Ilmur vildi fá HAM fílinginn í stefin sem eru spiluð í verkinu, en þau endurspegla kannski einhverja innri óreiðu í þessu öllu saman.“ 

Verkið er samið af Lauru Wade, sem er breskt leikskáld. Home, I'm Darling er þekktasta verk hennar af mörgum sem hún hefur skrifað og hefur hlotið hin virtu Olivier leiklistarverðlaun, árið 2019. Leikfélag Akureyrar verður fyrst til þess að setja upp verk eftir Lauru á Íslandi, en það er Vilhjálmur B. Bragason sem staðfærði og þýddi verkið yfir á íslensku. Ilmur Kristjánsdóttir er í leikstjórastólnum í fyrsta sinn.

 

Leikfélagið fer skemmtilegar leiðir í kynningarstarfinu fyrir verkið, en meðal annars er kafað í leiðbeiningabækur frá 1955 um það, hvernig skal vera hin fullkomna eiginkona. Myndir: Facebook síða LA

Spilar á öll hljóðfæri sjálfur

„Sko, þetta er enginn söngleikur,“ segir Sigurjón. „Það eru engir textar, þetta er í raun hljóðheimur verksins - ég er að semja millistef, senurnar eru ekki truflaðar með tónlist heldur er þetta að setja ákveðna stemningu. Eiginlega snýst þetta um að vaða í eitthvað sem mér finnst passa, miðað við mína upplifun af verkinu og sem betur fer hefur það rímað þokkalega við það sem leikstjórinn hugsaði sér.“ 

Þegar viðtalið er tekið við Sigurjón, fimmtudaginn 18. september, er hann að leggja lokahönd á að taka upp stefin í hljóðverinu í Hofi, en hann spilar sjálfur á öll hljóðfæri - bassa, gítar og trommur. „Það vill svo vel til að ég er kunnugur trommuleik frá því að ég var fermingarbarn, en ég fékk trommusett í fermingargjöf og ég var trommari í ísfirskum rokkhljómsveitum og þótti efnilegur,“ segir Sigurjón en hann segist halda sér við í trommuleik með því að tromma yfirleitt á allt sem hann nær í dagsdaglega, eins og lærin á sér, mælaborðið í bílnum og margt fleira. 

Í viðtali á krítískum tímapunkti í ferlinu

„Það sem ég er eiginlega ánægðastur með, er að læra á þessar fínu græjur hérna,“ segir Sigurjón. „Allur aðbúnaður er frábær og ég er loksins að læra almennilega á svona upptökubúnað, sem mig hefur langað til lengi.“ 

„Ég ætla svo að spila þetta fyrir leikstjórann og ég geri allt eins ráð fyrir því að hún fussi og sveii, og þá kem ég bara aftur í næstu viku og geri betur,“ segir Sigurjón, hógværðin uppmáluð. „Nei, nei, ég segi svona. En þú ert í rauninni að tala við mig á mjög krítiskum tímapunkti, ég er bara að klára dæmið en hef góða tilfinningu fyrir þessu. Ég kem svo auðvitað aftur þegar verkið verður frumsýnt og hlakka til að sjá.“ 

„Það verður gaman að sjá þetta koma saman, ég hef trú á þessu verki og ég held að það heppnist vel,“ segir Sigurjón að lokum. 


Elskan, er ég heima verður frumsýnt í Samkomuhúsinu 11. október kl. 20.00 og sýningarnar eru komnar í sölu á www.mak.is.