Fara í efni
Mannlíf

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN, SJÓMENN!

Gunnar Hannesson, skipstjóri á dagróðrabátnum Sæbjörgu EA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sjómannadagurinn er í dag. Afar lítið er um að vera á Akureyri í tilefni dagsins, líklega vegna samkomutakmarkana, en þó verður fólki boðið í siglingu með Húna II á Pollinum og sjómannamessa verður í Glerárkirkju.

Messan hefst klukkan 11.00. Ræðumaður dagsins er Steingrímur Helgu Jóhannesson, sjómaður og stjórnandi hlaðvarpsins Sjóarinn. Kór Glerárkirkju syngur sjómannalög undir stjórn Valmars Väljaots og séra Sindri Geir Óskarsson leiðir stundina.

Að guðsþjónustu lokinni er minningarstund við minnisvarðann um týnda og drukknaða sjómenn. Skemmdir voru unnar á minnisvarðanum á síðasta ári en þær hafa nú verið lagaðar, svo sómi er að, að því er segir á heimasíðu kirkjunnar. „Við fengum margar athugasemdir frá sjómönnum og öðrum sem þótti miður að minnisvarðinn hefði orðið fyrir skemmdum og því er ljóst að það skiptir fólk máli að eiga þennan stað sem helgaður er minningu þeirra sem við höfum misst á sjó.“

Fólki býðst að sigla með Húna um Pollinn klukkan 13, 14 og 15. Farið verður frá Torfunefsbryggju og í hverja ferð komast 50 farþegar. Húnamenn skora á smábátaeigendur að taka þátt í hópsiglingu sem hefst við Sandgerðisbót klukkan 13.30 og siglt verður inn á Poll að vanda.

Akureyrskir sjómenn eru á öllum aldrei og af öllum stærðum og gerðum, nú sem endranær. Gunnar Hannesson, skipstjóri á dagróðrabátnum Sæbjörgu EA 184, hefur verið á sjó í áratugi. Hann er á efri myndinni en á þeirri neðri eru fulltrúar yngri kynslóða; Ægir Þormar Pálsson og Ágúst Þór Bjarnason, skipverjar á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, þegar skipið kom til heimahafnar í fyrsta skipti.

Akureyri.net fór í róður með Gunnari og hans mönnum á Sæbjörginni um miðjan apríl. Smellið hér til að sjá grein og myndasyrpu úr róðrinum.

Innilega til hamingju með daginn, sjómenn!

Ægir Þormar Pálsson og Ágúst Þór Bjarnason, skipverjar á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, þegar skipið kom til heimahafnar í fyrsta skipti snemma í apríl. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.