Fara í efni
Fréttir

Tífaldur nethraði með 5G sendum Nova

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, gefur Þorleifi Jónassyni, sviðsstjóra hjá Fjarskiptastofu, fi…
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, gefur Þorleifi Jónassyni, sviðsstjóra hjá Fjarskiptastofu, fimmu í aðdraganda 5G væðingarinnar!

Fjarskiptafyrirtækið Nova hefur komið upp 5G sendum á fimm stöðum á Akureyri og mörgum bæjarbúum stendur því til boða áður óþekktur nethraði – hraðasta netsamband á Íslandi.

Sendarnir eru staðsettir víðsvegar og ná að þekja nánast allan bæinn, að sögn forsvarsmanna Nova; miðbæinn og stærstan hluta elstu bæjarhlutanna, en ekki var lögð áhersla á að byggja upp á þeim svæðum sem nú þegar hafa aðgengi að öflugu 4.5G kerfi hjá Nova auk ljósleiðara.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á næstunni og verður fleiri sendum komið fyrir þar sem þörf krefur. Vel er fylgst með álagi, að sögn.

Rúmlega þúsund þegar tengdir

Athygli vekur að nú þegar hafa yfir þúsund manns tengst 5G á svæðinu og merkja má allt að 50% meiri netnotkun meðal 5G notenda, skv. upplýsingum Akureyri.net, þar sem gæði efnis eru mun meiri sökum stærri gagnapakka sem berast á meiri hraða til notenda.

Með innleiðingu 5G á Akureyri býður Nova notendum sínum upp á margfaldan nethraða heimila og fyrirtækja á svæðinu, en 5G flutningsgeta og hraði er um tífalt á við það sem þekkist í 4G kerfinu sem hingað til hefur verið notað. Samhliða innleiðingunni á Akureyri mun Nova smám saman leggja niður 3G kerfið á næstu árum; eldri fjarskiptabúnaði verður þá skipt út fyrir þessa nýju tækni og þurfa notendur því ekki að hafa áhyggjur af að missa netsamband meðan á innleiðingunni stendur.

5G er orðið aðgengilegt á öllum nýjustu tækjunum frá Samsung, iPhone, One Plus og Nokia. Auk þess sem Nova býður upp á svokallaða 5G netbeina fyrir heimanet. Hundruð tækja, sem væntanleg eru á markað styðja öll 5G, sem er einfaldlega framtíðin, að mati þeirra sem til þekkja.

Mun meiri afköst og hratt streymi

„Fyrir Akureyringa þýðir innleiðingin mun meiri afköst en íbúar hafa þekkt hingað til, hvort sem er í gegnum síma eða jarðtengingar, auk þess sem 5G þjónusta mun veita íbúum sveitarfélagsins gífurlega hratt streymi, styttri svartíma, og niðurhal á ofurhraða,“ segir Benedikt Ragnarsson framkvæmdastjóri fjarskipta Nova. 

5G mun að jafnaði skila 150-200 Mb/s hraða á sekúndu og fara reglulega upp fyrir 1.000 Mb/s. „Það þýðir að þeir Akureyringar sem eru með tæki sem styðja 5G, eru með eina hröðustu nettengingu sem fyrirfinnst á Íslandi og reyndar heiminum öllum. 5G hraði jafnast á við öflugustu ljósleiðaratengingar þar sem þú getur hlaðið niður allt að 2,3 GB á sekúndu og svartíminn er undir 10 millisekúndur,“ segir Benedikt Ragnarsson.

5G þjónusta Nova fór í loftið í byrjun maí í fyrra þegar Póst- og fjarskiptastofnun úthlutaði tíðninni en þá þegar höfðu prófanir staðið yfir hjá Nova í rúmt ár.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, gefur Þorleifi Jónassyni, sviðsstjóra hjá Fjarskiptastofu, fimmu í aðdraganda 5G væðingarinnar!